GDRN og Vignir Snær mættu í Grunnskólann austan Vatna

Hæfileikafólk á Hofsósi. MYNDIR: RAGNHEIÐUR HALLDÓRSDÓTTIR
Hæfileikafólk á Hofsósi. MYNDIR: RAGNHEIÐUR HALLDÓRSDÓTTIR

Feykir sagði frá því í síðustu viku að skólarnir á Hvammstanga og Hofsósi hefðu komist í úrslit í Málæði, verkefni sem List fyrir alla stendur að í félagi við Bubba Morthens með það að markmiði að fá skólabörn til að semja lög og texta á íslensku. Krakkarnir á unglingastii Grunnskólans austan Vatna fékk góða gesti í heimsókn í skólann á þriðjudaginn vegna þessa.

Vala Kristín Ófeigsdóttir, umsjónarmaður verkefnisins á Hofsósi, segir að Vignir Snær, Guðrún Ýr (GDRN), Stulli upptökumaður frá RÚV og verkefnastjórarnir Harpa Rut og Elva Lilja komu strax í upphafi skóladags hafi mætt í skólann til að taka lagið upp og gera myndband. „Dagurinn byrjaði á því að Dagmar Helga og Valgerður Rakel fluttu lagið sitt, Riddari kærleikans, fyrir nemendur unglingastigs og gestina. Í kjölfarið kynntu Guðrún og Vignir sína sýn og hvernig þau langaði að stækka lagið en halda jafnframt í laglínuna.“

Vala segir að nemendur hafi síðan hafist handa við fjölbreytta vinnu, sumir að semja texta við nýjan C-kafla, aðrir leituðu að góðum tökustöðum fyrir myndband og svo var saminn texti við nýtt erindi.

„Að þessu loknu voru upptökur og nemendur skiptust á að syngja inn raddir og fengu mjög góða leiðsögn frá Guðrúnu og Vigni,“ segir hún og við að gestirnir hafi haft mikinn vilja til að virkja allan hópinn. „Þau voru afar hvetjandi og jafnframt hissa á því hvað margir voru tilbúnir að spreyta sig. Deginum lauk svo með upptökum úti, í Staðarbjargavík og á brúnni við Pakkhúsið. Tökumaðurinn frá RÚV fékk svo aðstoð frá Dóra á Molastöðum sem mætti með drónann til að fullkomna gott tónlistarmyndband,“ segir Vala.

Höfðu krakkarnir gaman af heimsókninni og vinnunni við verkefnið? „Jú, krakkarnir höfðu bæði gott og gaman af þessu. Enda eru Guðrún og Vignir með afskaplega góða nærveru og stútfull af hæfileikum.“

Skemmtilegt verkefni og örugglega minnisstæð upplifun fyrir nemendur að fá þessa góðu gesti í heimsókn í skólann.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir