Fjölmennur framboðsfundur á Hofsósi

Í gær var haldinn framboðsfundur í félagsheimilinu Höfðaborg á Hofsósi þar sem frambjóðendur kynntu sig og málefni sinna flokka. Götumerkingar, stolinn leikvöllur og breyttar svefnvenjur íbúa meðal þess sem rætt var um.

Íbúar Hofsóss og nágrannasveita fjölmenntu á fundinn og hlýddu á boðskap frambjóðenda sem töluðu um ágæti svæðisins og hvað mætti gera til úrbóta. Gestum gafst kostur á því að spyrja frambjóðendur að því sem þeim bjó efst í huga og óhætt er að segja að skólamál, húsnæðisvandi og bygging íþróttahúss hafi verið þar ofarlega. Framboðin öll hétu því að skólahaldi í Fljótum yrði haldið þar áfram þrátt fyrir að nemendum fari fækkandi í bili a.m.k.

Fram kom að húsnæðisekla væri vandamál á Hofsósi og það lúxusvandamál bíður úrlausnar nýrrar sveitarstjórnar því lausnin fannst ekki í gær. Það vekur athygli hvað húsnæðisvandamál í Skagafirði virðist almennt og viðvarandi meðan verið er að hvetja fólk til að flytja í Fjörðinn. Ekki var einhugur hjá frambjóðendum varðandi byggingu íþróttahúss á Hofsósi þar sem eitt framboð sagði að ekki væri mögulegt fjárhagslega að fara í byggingu í það að „næstum því“ væri hægt að lofa skóflustungu innan tveggja ára.

Einnig kom fram að með tilkomu strandveiða hefur færst aukið líf og starfsemi við höfnina sem kallar á framkvæmdir og viðhald hennar og var vilji frambjóðenda til að efla smábátaútgerð í Hofsósi.

Í inngangi fréttar var talað um götumerkingar, stolinn leikvöll og breyttar svefnvenjur íbúa en spurt var á fundinum hvort ekki væri hægt að fara í götumerkingar, sem virðist vera lítið vandaverk og voru allir sammála um að það verði gert. Undarlegt þjófnaðarmál var upplýst á fundinum en fyrirspurn kom úr sal hvort ekki yrði farið í það að setja ný tæki á leikvöllinn en svo virtist sem honum hafi verið stolið einn góðan veðurdag og könnuðust fáir við máli. Það upplýstist þó á endanum að tækin voru fjarlægð í öryggisskyni af sveitarfélaginu og þó enginn lofaði nýjum velli voru menn þó sammála um að börnin þurfi aðstöðu til að leika sér. Með breyttum svefnvenjum Hofsósinga og nærsveitamanna var vísað til þess að þær hafi orðið til þess að biðlisti hefur myndast á leikskóla staðarins. Leikskólinn er starfræktur í gömlu einbýlishúsi og voru menn sammála um að úrbóta væri þörf þó ekki hafi fundist endanleg lausn á biðlistavandamáli í gær.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir