Ég sigli á logum ljósum- Kveðskapur Erlings Péturs á bók
Þriðjudaginn 30. apríl verður haldið útgáfuhóf á Mælifelli á Sauðárkróki vegna bókar sem innheldur ljóð og stökur Erlings Péturssonar, f.v. kaupmanns í Versluninni Tindastól. Þar má búast við skemmtilegri dagskrá þar sem Brynjar Pálsson mun stjórna dagskrá Valgerður dóttir Erlings spjallar um kveðskap föður síns. Þá munu gamlir kunningjar og vinir Erlings rifja upp kynni sín af honum og sungin verða nokkur við texta hans. Sölvi Sveinsson ætlar að segja frá tilurð bókarinnar en Feykir gat ekki beðið svo lengi og hafði samband við Sölva og forvitnaðist um bókina.
Sölvi upplýsir að tilurð bókarinnar hafi orðið með þeim hætti að í spjalli við Valgerði Erlingsdóttur hafi komið fram að hana langaði til að gefa út ljóð og vísur föður síns en hún hefur varðveitt uppskriftir hans af kveðskapnum.
„Auk Valgerðar höfum við Árni Ragnarsson komið að útgáfunni. Árni safnaði þeim kveðskap sem til var á Króknum en ég fór í gegnum þau gögn sem lágu hjá Valgerði. Ég sló þetta allt saman inn en síðan var efnið skorið niður í tæplega 100 bls.,“ segir Sölvi. „Bókinni er skipt í nokkra kafla eftir yrkisefnum, myndir af Króknum, í för með Bakkusi, pólitíkin, ljóð um veiðimenn sem Erling samdi við ákveðin lög sem voru sungin á árshátíð stangveiðifélagsins, síðan vísur héðan og handan.“ Sölvi segir að um bráðskemmtilega og hressilega bók sé um að ræða enda hafi verið reynt að vanda til útgáfunnar þannig að bókin er líka fallegur prentgripur.
Titill bókarinnar Ég sigli á logum ljósum er upphafslína úr einu kvæða Erlings og sjá má hér fyrir neðan.
Nafnlaust ljóð
Ég sigli á logum ljósum
og líf mitt öndum fel.
Þó líður mér ekkert illa
en ekki heldur vel.
En ég á enga vini
utan fáa í skel.
Þó líður mér ekkert illa
en ekki heldur vel.
Ég leik mér ekkert lítið
en lifi þó ei hátt
og þætti heldur skrítið
ef yrði mér svarafátt.
Því margir ógnarandar
áfram draga mig
Ég læt mér vel við líka
lífið, þig og mig.
Það skyldi engan undra
þó andaðist ég brátt.
Ég myndi fara í friði
og flesta við í sátt.
En ég til himna haldi
ég hálfan vafa tel.
Þó líður mér ekkert illa
en ekki heldur vel.
Athugið að rangt var farið með dagsetningu í síðasta Feyki þar sem sagt var að útgáfuhófið væri á mánudegi. Rétt er að það verður haldið þriðjudaginn 30. apríl.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.