Brynjar Pálsson | Minning
Pabbi og mamma fóru að draga sig saman sumarið 1954. Hann þá 18 ára, nýkominn heim af Vellinum og nógu auðugur, eftir á annað ár þar, til að geta keypt sér gamlan Willis-jeppa af Hermanni á Lóni með númeraplötunni K217. Það var kannski ekki gott að mamma var að stinga af í húsmæðraskóla til Silkiborgar í Danmörku og skildi hann eftir á Króknum einn vetur. Ekki löngu áður en mamma dó, fyrir tíu árum, fundum við veskið sem hún hafði farið með út en inni í því var svarthvít mynd af kærastanum. Hún brosti og sagði, með blik í auga, að vinkonur hennar hefðu haldið að hann væri kvikmyndastjarna. Hún var enn skotin í honum.
Pabba þótti það miður að hann fæddist á Landspítalanum í Reykjavík. Það var eitthvað sem hann laumaði að fólki eins og skelfilegu leyndarmáli en naut þess að segja svo að hann hefði strax tíu daga gamall fengið það í gegn að flytja heim á Krók. Þar bjuggu amma hans og afi, Binna og Júlli, um litla drenginn í kommóðuskúffu í pínulitla húsinu þeirra við Freyjugötu 11 sem þau deildu með annarri fjölskyldu.
Pabbi fékk snemma bíladellu, settist fyrst undir stýri á póstbílnum sex ára gamall og var orðinn aðstoðarökumaður hjá fjölskylduvininum og ökuþórnum Palla Sveinbjörns um tólf ára aldur – kannski fyrr. Hann hafði unun af því að keyra og keyrði mikið alla tíð.
Pabbi var glaðsinna og kunni ógrynni af sögum af Króknum og sagði þær af væntumþykju. Hann var óþolandi mannglöggur, forvitinn um fólk og kunni þá list að geta talað við alla af áhuga og glettni. Og þá meina ég alla. Ég held það hafi verið sama hvar við komum, alltaf komst hann á gott spjall. Stundum hófst það með óvæntu útspili sem leiddi til þess að jafnvel lokaðasta fólk opnaði sig.
Við Palli ólumst upp í foreldrahúsum á Hólmagrundinni en ólíkt bróðir mínum flaug ég aldrei úr hreiðrinu. Bjó því með pabba alla tíð eða alveg þangað til hann varð að fá umönnum síðasta haust. Fyrst á sjúkrahúsinu á Króknum og síðan á Dvalarheimili aldraðra. Þá var minni hans verulega brugðið og hreyfigetan farin að minnka. Lífið fjaraði þá hratt undan honum.
Síðustu tvö árin hans heima reyndu stundum á. Pabbi var vanur að láta verkin tala og þolinmæði var því ekki hans stærsti kostur. Það var þó mesta furða hvað hann hélt í góða skapið þegar minnið og getan gaf sig, allar sögurnar hans urðu að hálfkveðnum vísum og andartakið varð óræður tími. Hann gat fengið kvíðaköst eins og eðlilegt er þegar maður veit hvorki stað né stund. Það gat því verið kvíðvænlegt að koma heim úr vinnu. Oftast var K217 fyrir framan bílskúrinn og pabbi í stólnum sínum í stofunni. Stundum leið honum illa og spurði önugur hvar ég væri búinn að vera. En oftast leit hann hlýlega upp þegar hann varð var við mig og sagði: „Ert þetta þú elsku hjartans vinurinn minn.“
Er hægt að hugsa sér hlýrri kveðju? Takk fyrir allt elsku pabbi.
Óli Arnar
- - - - -
Júlíus Brynjar Pálsson fæddist þann 10. júní 1936. Hann lést 18. mars 2025. Foreldrar hans voru Sigurlaug Júlíusdóttir húsmóðir f. 11.09 1918, d.20.081991, og Páll Sigurðsson rakarameistari í Reykjavík, f. 04.01 1918, d.19.03 2000.
Brynjar, eða Binni Júlla, var aðeins nokkra vikna gamall þegar hann fór í fóstur til móðurforeldra sinna, þeirra Brynhildar Jónsdóttur og Júlíusar Pálssonar, en þau bjuggu á Sauðárkróki. Hann ólst upp á Króknum á heimili afa hans og ömmu að Freyjugötu 11 og gekk í barnaskóla og gagnfræðaskóla þar. Hann fór síðan í Iðnskólann á Sauðárkróki og lauk námi í bifvélavirkjun. Brynjar bjó alla sína ævi á Króknum, fyrir utan rúmt ár þegar hann vann á Keflavíkurflugvelli, strax eftir að hann lauk gagnfræðaskóla.
Hann giftist Vibekku Bang (Vibbu) vorið 1963, en hún var dóttir apótekarahjónanna á Sauðárkróki, Ole og Minnu Bang.
Brynjar og Vibba eignuðust tvo syni; Pál Snævar f. 01.03 1965, hann er giftur Ingu Dóru Halldórsdóttur og eiga þau tvö börn, Ástdísi og Brynjar Snæ. Yngri sonurinn er Óli Arnar f.01.08 1970. Barnabarnabörnin eru tvö.
Brynjar vann lengi vel hjá Kaupfélagi Skagfirðinga, fyrst í kjötbúðinni á Freyjugötu, síðan hóf hann störf á bílaverkstæði kaupfélagsins og tæplega þrítugur tók hann við starfi framkvæmdastjóra bíla-, véla- og rafmagnsverkstæðis KS. Þar starfaði hann fram til ársins 1982 en þá stofnuðu þau Vibekka Bókabúð Brynjars sem þau starfræktu allt fram til ársins 2005. Fyrir utan að selja bækur og gjafavörur í búðinni var hægt að framkalla myndir, tryggja hjá TM og versla nýja bíla en Brynjar var m.a. umboðsmaður Toyota í hátt í 40 ár.
Brynjar tók alla tíð mikinn þátt í félagsmálum og bar hag nærsamfélagsins fyrir brjósti. Hann var heiðursfélagi í Rótarýklúbbi Sauðárkróks, sat í sóknarnefnd Saiðárkrókskirkju og var um tíma formaður hennar, var formaður Stangaveiðifélags Sauðárkróks og sat í stjórn Bílgreinasambandsins. Hann var varamaður í bæjarstjórn Sauðárkróks fyrir K-lista óháðra og síðar Sjálfstæðisflokkinn í sveitarstjórn Skagafjarðar, formaður hafnarnefndar um árabil, auk þess sem hann sat í stjórn Hafnarsambands sveitarfélaga og Hafnarráði.
Útför Brynjars fór fram frá Sauðárkrókskirkju föstudaginn 4. apríl 2025.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.