Skagaströnd tryggð fjarskipti um gervihnattasamband
Míla hefur nú komið á varasambandi um lágsporbrautargervihnattasamband á Skagaströnd til að tryggja að neyðarsímtöl geti borist af svæðinu ef ljósleiðaraslit á sér stað. Skagaströnd er eitt þeirra sveitarfélaga á Íslandi sem eru eintengd með einum ljósleiðarastreng. Ef tengingin slitnaði, eins og hefur gerst nýlega tvisvar sinnum í vondu veðri, var samfélagið nánast skilið frá nútímanum og sett aftur um hundrað ár í tímann hvað varðar samskipti. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Skagaströnd.
Þessi nýja lausn byggir á lágsporbrautargervihnattarsamskiptum og er mikilvægur áfangi í að tryggja öryggi og stöðugleika fjarskipta á svæðinu. Samskipti um gervihnetti eru þó takmörkuð og eiga erfitt með að veita mikla bandbreidd, jafnvel þó svartíminn sé góður þegar gervihnettirnir eru á lægri sporbraut. Það er því mikilvægt að koma á varasambandi um ljósleiðarastreng til Skagastrandar til að tryggja að önnur þjónusta en neyðarþjónusta verði ekki fyrir takmörkunum.
Sveitarstjóri Skagastrandar, Alexandra Jóhannesdóttir, lagði áherslu á mikilvægi þessa verkefnis: „Þetta er gríðarlega mikilvægur áfangi fyrir samfélagið okkar. Nú erum við ekki lengur háð einum streng varðandi fjarskipti á svæðinu sem styrkir öryggi íbúa Skagastrandar. Það er nauðsynlegt að fá hið opinbera með okkur í lið til að klára tvítengingu ljósleiðara og erum við í góðu samtali við innviðaráðuneytið vegna þessa máls. Það tekur hins vegar allt lengri tíma en maður hefði viljað og því þótti okkur mikilvægt að finna aðra lausn til að tryggja öryggi íbúa á meðan unnið er að varanlegi lausn. Við erum mjög þakklát fyrir það hversu vel Míla tók í hugmyndina og fyrir að hafa komið þessu í framkvæmd á eins skömmum tíma og raun ber vitni“.
Forstjóri Mílu, Erik Figueras Torras, er ánægður með útkomuna: „Við hjá Mílu vinnum statt og stöðugt að því að efla fjarskiptaöryggi landsins og þetta verkefni er gott dæmi þar sem ný tækni nær að leysa úr erfiðum aðstæðum. Þökk sé lágsporbrautargervihnattarsambandi hefur Skagaströnd nú fengið lausn sem tryggir bæði öryggi og framtíðarsýn í fjarskiptum. Reynið að segja þetta orð þrisvar sinnum hratt!“.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.