Draumar og veruleiki
Nú er kosningaslagurinn kominn á fullt og allir ætla að gera allt og meira en það. Loforð á loforð ofan og kannski ekki búið að efna öll frá síðustu kosningum eða hvað? Stundum verður nefnilega minna um efndir sem vonlegt er. Allt kostar peninga sem víðast hvar er lítið af um þessar mundir, enda er þetta mikið láglaunasvæði og varla verður farið að hækka skatta ofan á allt annað?! Þó er sá málaflokkur sem mér finnst hafa orðið meira útundan en aðrir, en það eru mál aldraðra og öryrkja. Ég sá í einhverjum gömlum kosningabækling X-D sáluga, slatta af loforðum öldruðum til handa sem ég held að hafi gleymst og það er ekki gott. Í framhaldi af því verð ég að nefna Heilbrigðisstofnunina okkar á í fullu fangi við verjast vegna óheyrilegs niðurskurðar umfram önnur sjúkrahús. Allt vegna duttlunga ýmsar ráðamanna þessarar þjóðar í skjóli kreppu. Það hlýtur að vera forgangsmál að hafa góða heilbrigðisþjónustu því eitt er víst, veikindi gera ekki boð á undan sér þó sumir haldi annað og auðvitað eru það forréttindi að hafa góða heilsu. Á þessu sama sjúkrahúsi er mikið af ónýttu plássi og hafa ýmsar tilögur verið sendar í hámenninguna þarna fyrir sunnan, en engin svör komið, þó veit ég ekki annað en hér séu biðlistar vegna eldra fólks sem vill fá pláss og kannski eiga áhyggjulaust ævikvöld. Nei betra er að hafa húsnæðið autt. Við þetta verður ekki unað og þarf að taka á þessu máli og þá vil ég ekki fá þau svör aftur að þetta komi bæjarstjórn ekki við. Hagsmunir fólksins hljóta að koma bæjarstjórn við, hver sem situr við stjórn.
En maður má nú líka láta sig dreyma og eins og svo margir á ég mér drauma fyrir bæinn okkar. Ég hef í gegnum tíðina og þá sérstaklega þegar kosningaumræða er í gangi haft orð á því að gera þyrfti falleg útivistarsvæði, bæði þar sem Draugagil er og eru ruslahaugar núna og Skúlahorn. Það geta ekki allir staðir státað sig af jafn góðum útsýnisstöðum eins og við hér á Blönduósi.
Draumur minn hefur meira að segja gengið svo langt að ég hef séð fyrir mér að upp á Skúlahorni yrði settur upp stjörnukíkir og lítið kaffihús því mér vitanlega fyrir finnst hvergi stjörnukíkir annarsstaðar en í Reykjavík, svo er nú ekki amalegt að horfa á sólsetrið hér allan ársins hring og norðurljósin þegar þau eru.
Gæti þetta ekki verið tilvalið verkefni fyrir einhver félagasamtök hér á svæðinu. En því miður eru þetta ljótustu staðir í annars okkar fallega bæ.
Nú hugsa sennilega margir; er kerlingin orðin vitlaus, þetta kostar nú pening, rétt er það en allt kostar nú pening, en eins og áður sagði þá eru þetta bara mínir draumar og það kostar ekkert að láta sig dreyma og góðir bæjarbúar, þó eg sé að setja mína drauma á blað ásamt köldum staðreyndum um heilbrigðisþjónustuna, tek ég það skýrt fram að ég er ekki í framboði en ég á minn rétt með mínu atkvæði eins og allir aðrir og veit að þetta fólk sem er á framboðslistunum á að vinna fyrir okkur eins vel og hægt er og við þurfum að fylgjast með því að það verði gert og láta vita ef við erum ekki sátt.
Að lokum óska eg öllum sem hafa boðið sig fram, velfarnaðar hvort sem þeir verða í Bæjarstjórn eður ei, sem og okkur öllum sem hér búum og hvet alla til að setja X við S á laugardaginn.
Bóthildur Halldórsdóttir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.