Bjóðum gesti velkomna í bæinn
Áreiðanlega viljum við öll að þeir gestir sem heimsækja Skagafjörð og Sauðárkrók eigi ánægjulega dvöl og yfirgefi svæðið með ljúfar minningar í farteskinu. Eitt af því sem betur mætti gera hér á Sauðárkróki er að merkja hverfi, götur og leiðir í bænum. Vissulega er Krókurinn engin stórborg og til dæmis ekki vandamál að komast út úr bænum, en hinsvegar getur það verið nokkrum erfiðleikum bundið að komast inn í inn í hann, og fyrir þá sem ókunnugir eru, er ekki margt sem bendir til þeirrar þjónustu sem fá má á svæðinu og eftir er verið að leita.
Ef skoðaður er Strandvegurinn, þessi fallega leið, ef við horfum bara til hafsins , en látum sem við sjáum ekki húsarústirnar sem snúa bakhliðinni að sjónum en eru allt í einu orðnar önnur aðalásýnd bæjarins með tilkomu Strandvegarins
Þeir sem koma Þverárfjallið og aka inn í bæinn úr norðri munu nánast örugglega aka framhjá ómerktri leið inn í gamla bæinn hjá Villa Nova, enda þar ekkert sem bendir til þess að þetta sé aðalleiðin inn í bæinn. Við húsið Björk, við gamla Rafsjár húsið, við slökkvistöðina hvergi er nokkur minnsta vísbending um að þarna séu leiðir inn í bæinn, og það er raunar ekki fyrr en við Hegrabrautina að sett hefur verið upp merking, sem bendir á að vænlegt sé að aka þessa leið ef menn þurfi á bráðahjálp að halda og læknisþjónustu.
Hvernig væri nú að setja upp merkingar sjávarmeginn við Strandveginn, þar sem ör benti á innaksturinn, og við Hegrabrautina mætti standa t.d. Hlíða- og Túnahverfi, Fjölbrautaskóli, Heilbrigðisstofnun, Pósthús. Við Slökkvistöðina mætti standa: Suðurbær, Grundir, Stígar, Apotek, Íþróttasvæði. Við Rafsjárhúsið mætti nefna: Frúarstígur, Gamli bær, Ráðhús, Safnahús, Sundlaug, Bankar. Við Björk mætti standa: Kirkja, Gamli miðbær, Minjahús, kaffi- og veitingahús, golfvöllur. Við Villa Nova væri gagnlegt að benda á elstu byggðina á staðnum og nefna í því tilviki bæði Villuna og Erlendarhús sem er til sóma nýendurgert.
Læt þetta nægja í bili, en það eru margir fleiri staðir sem merkja mætti, og gera þannig gamla Krók aðgengilegri og skemmtilegri fyrir gesti okkar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.