Árni Geir í framkvæmdastjórastarf hjá Origo
Króksarinn Árni Geir Valgeirsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri hjá Origo og mun hann leiða hugbúnaðarsvið félagsins frá októbermánuði. Origo er eitt af stærstu tölvufyrirtækjum landsins.
Í tilkynningu á vef Origo segir að Árni Geir hafi víðtæka reynslu af stjórnun í hugbúnaðarþróun og rekstri. Hann starfaði áður hjá Íslandsbanka frá árinu 2011 þar sem hann var forstöðumaður stafrænnar þróunar á upplýsingatæknisviði, ásamt því að bera ábyrgð á tækniframþróun og tæknihögun, bæði í þróun og rekstri. Áður vann Árni við hugbúnaðarþróun og rekstur hjá Tern Systems, VIJV og Oz.
Árni er með B.Sc. í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík og M.Sc. í Verkfræði með áherslu á máltækni og gervigreind frá Álaborgarháskóla. „Ég er bæði stoltur og spenntur að ganga til liðs við teymið hjá Origo sem hefur náð frábærum árangri í vöruþróun og taka þátt í þeirri vegferð sem er þar framundan.
Hann er sonur Valgeirs og Buggu eða nánar tiltekið Valgeirs Kárasonar og Guðbjargar Pálmadóttur.
Upprifjun á tuðrusparki
Þess má til gamans geta að Árni Geir var í tuðrusparkinu með liði Tindastóls og fleiri liðum í byrjun aldarinnar. Síðasta leikinn með liði Stólanna spilaði hann 18. maí 2003 en þá skoraði hann strax á 4. mínútu. Leikurinn endaði hins vegar 6-2 fyrir Húsvíkingum og Snorri Geir Snorrason fékk að líta rauða spjaldið seint í leiknum.
Í síðasta leik Stólanna haustið áður var farið á Selfoss og börðust liðin um fimmta sætið í 2. deildinni. Árni Geir fékk gult spjald á fyrstu mínútu en Björn Ingi Óskarsson kom Stólunum yfir um miðjan fyrri hálfleik. Selfyssingar jöfnuðu fyrir hlé en á 63. mínútu fékk hinn dagfarsprúði Sveinbjörn Jón Ásgrímsson að líta rauða spjaldið og Árni Geir sömuleiðis stundarfjórðungi fyrir leikslok. Selfyssingar gerðu síðan tvö mörk í blálokin og tryggðu sér fimmta sætið.
Magnað hvað dómararnir hafa verið með stuttan þráð þarna í byrjun aldar...
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.