Hópsláturgerð á Blönduósi
Þaulvanar sláturgerðarkonur í Húnabyggð kenndu handbragðið í Félagsheimilinu á Blönduósi þegar blásið var til hópsláturgerðar þar sl. sunnudag. Viðburðurinn var afar vel sóttur og fór mætingin fram úr væntingum að sögn Kristínar Lárusdóttur menningar-, íþrótta og tómstundarfulltrúa á Blönduósi.
Milli 80 og 100 manns mættu í sláturgerðina og voru gerðir 250 keppir, bæði blóðmör og lifrarpylsa.
Í auglýsingu viðburðar kom fram að hin aldagamla íslenska hefð að taka slátur á haustin sé á töluverðu undanhaldi í nútíma þjóðfélagi. Hér áður fyrr þótti sláturgerð hluti af sjálfsögðum haustverkum þar sem flest heimili tóku slátur. Félagsleg athöfn þar sem fjölskyldur hittust og tóku slátur saman, kynslóðir sameinuðust og þau yngri lærðu vinnubrögðin af þeim eldri. Markmiðið var því að tengja sláturgerð við heimabyggðina og varðveita í leiðinni þessa aldargömlu hefð og endurvekja sláturgerð í samfélaginu þar sem hefðin hefur smám saman farið dvínandi og fáir sem taka orðið slátur.
40.tbl. Feykis
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.