„Sigurkvöldið varð algjör sæluþoka“ / KUSK
Feykir sagði frá því síðastliðið vor að KUSK, Kolbrún Óskarsdóttir (fædd 2003), hefði sigrað Músíktilraunir 2022 og verið fyrsti einstaklingurinn til að vinna Tilraunirnar frá upphafi vega. Kolbrún á ættir að rekja í Skagafjörðinn og því var hún plötuð í að svara Tón-lystinni nú fyrir jólin og fékk raunar nokkrar aukaspurningar. „Ég er dóttir Óskars Arnar Óskarssonar og því barnabarn Óskars [læknis] Jónssonar og Aðalheiðar Arnórsdóttur. Ég ólst mestmegnis upp í Svíþjóð þar sem pabbi og mamma voru í sérnámi fyrir lækninn en eyddi mörgum sumrum í Dalatúninu á Króknum,“ segir Kolbrún en rétt er að geta þess að móðir hennar, Ingibjörg Hilmarsdóttir, er frá Vopnafirði en fjölskyldan býr nú í Vesturbænum í Reykjavík.
Þegar Kolbrún er spurð um hvaða hljóðfæri hún spili á segir hún: „Hef vissulega bara lært á eitt hljóðfæri og það var á gítar þegar ég var aðeins yngri. Síðan er ég bara búin að afla mér hljóðfærareynslu í gegnum YouTube og að semja.“
Hvenær byrjaðir þú að fikta við tónlist og hvað kom til? „Þegar önnur Covid-bylgjan skall á var ég orðin frekar leið á því að vera bara heima og gera varla neitt. Ég rakst svo á GarageBand appið í tölvunni minni sem ég hafði ekki opnað í mörg ár. Þaðan fór ég að fikta og semja mín eigin lög. Fannst ótrúlega gaman að prófa mig áfram og læra af því að bara gera. Svo fór bara boltinn að rúlla og með tímanum varð þetta að mínu helsta áhugamáli.“
Eðlilega segir Kolbrún mikið hafa verið að gera hjá sér á árinu í kjölfarið á sigrinum í Músíktilraunum og aðspurð um helstu afrekin á tónlistarsviðinu á þessum stutta tíma svarar hún: „Spilaði í Vikunni með Gísla Marteini, fór út til Hollands að spila, spilaði á Arnarhóli á Menningarnótt, á Airwaves og hitaði upp fyrir hljómsveitina Vök í haust svo eitthvað sé nefnt. Mörg skemmtileg tækifæri og dyr sem opnuðust.“ Þá má að sjálfsögðu geta þess að KUSK gaf út breiðskífuna Skvaldur nú fyrir jólin og hefur hún fengið afar lofsamlega dóma. Tónlistardoktorinn Arnar Eggert segir Kolbrúnu vera ferskan andvara. „Hún er örugg á sviði og sjarmerandi, tónlistin svalt og umlykjandi rafpopp með vísunum í Vök og GusGus.“
En nóg komið af skvaldri, skellum okkur í spurningarnar...
Hvaða lag varstu að hlusta á? „Er í sannkallaðri ritgerðartíð í Háskólanum núna þannig er búin að hlusta mikið á Bon Iver, var að hlusta á Flume núna síðast“
Uppáhalds tónlistartímabil? „Þótt ég hlusti á voðalega vítt tímabil af tónlist verð ég eiginlega að segja sjöundi og áttundi áratugurinn.“
Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? „Íslensk tónlist. Síðan ég byrjaði að gefa út tónlist sjálf finnst mér ótrúlega gaman að hlusta á nýja íslenska tónlist, stundum þekkir maður aðeins til fólksins sem er að gefa út og það er svo gaman að sjá aðra gera það sem manni finnst svo gaman sjálfum. Til dæmis Lúpína, sem er íslensk tónlistarkona í námi úti og er nýbyrjuð að gefa út, hún er frábær. Annars er ég líka mjög hrifinn af live jazz tónlist, hún grípur mig hvar sem er.“
Hvaða lag er í uppáhaldi akkúrat núna? „Ætli það sé ekki You and I, með Earth, Wind and Fire.“
Ef þú gætir valið þér söngvara til að syngja með þér dúett, hvaða söngvara vildirðu syngja með og hvaða lag tækjuð þið? „Ég hugsa að ég myndi velja sænska söngvarann Ted Gardestad. Hann var fyrsti tónlistarmaðurinn sem ég virkilega hlustaði á í botn. Við myndum taka lagið Sol vind och vatten, þar sem það var uppáhaldslagið mitt með honum og ég hlustaði endurtekið á það þegar ég ólst upp.“
Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? „Það var mjög fjölbreytt, mikið af sjöunda og áttunda áratugnum (sem skýrir afhverju það er uppáhalds tímabilið mitt), eins og Bítlarnir og Queen. Pabbi hefur í gegnum tíðina verið mjög duglegur að kynna mig fyrir tónlist og það er gaman að sjá hvernig í gegnum árin ég hef einnig farið að kynna hann fyrir tónlist. Þannig að þetta verður í raun einhvers konar súpa af alls konar tegundum tónlistar.“
Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? „Það var diskurinn Ted, með Ted Gardestad sem var sænskur tónlistarmaður og trúbador.“
Hvaða græjur varstu þá með? „Lítinn bleikan geisladiskaspilara sem var líka útvarp.“
Hvað var fyrsta lagið sem þú manst eftir að hafa fílað í botn? „Time to Pretend með MGMT. Man eftir því að hafa hoppað um í sófanum í Svíþjóð við þetta lag og horft á tónlistarmyndbandið sem því fylgdi oft á dag. Þetta var uppáhaldslagið mitt í langan tíma þegar ég var yngri.“
Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? „Dance Monkey með Tones and I, ég þoli ekki þetta lag.“
Þú heldur dúndurpartý í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? „Ef það er eitt lag sem kemur öllum í stuð þá er það Bohemian Rhapsody með Queen. Allir syngja með, hvort sem fólk syngur vel eða illa, allir eru bara saman að njóta. Það verður líka helst einhver að fara á píanóið og spila með.“
Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? „Eitthvað gott morgun djazz, helst Giant Steps með John Coltrane.“
Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? „Mig hefur alltaf dreymt um að fara á spænsku tónlistarhátíðina Primavera sem er haldin á hverju ári í Barcelona. Þar koma alltaf fram ótrúlega góðir artistar, Beach House, Tame Impala, Gorillaz og Tyler the Creator komu til dæmis fram á hátíðinni í vor. Ég myndi allan daginn taka með mér stóran hóp af vinum og nákomnum, – svo eru líka allir bara velkomnir með sem vilja!“
Hvaða Bítalalag hefðir þú vilhað hafa samið? „Yesterday, allan daginn. Mér finnst þetta algjörlega magnað lag og það lætur tvær mínútur líða eins og löng og góð kósýstund. Það er hægt að týna sér í þessu lagi endalaust.“
Hvaða músík var helst blastað í bílnum þínum þegar þú varst nýkomin með bílpróf? „Aðallega lögin Can I Call You Tonight með Dayglow en einnig 1979 með The Smashing Pumpkins. Líka mikið af Bítlum.“
Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera eða haft mest áhrif á þig? „Norska tónlistar- og söngkonan Aurora hefur haft mikil áhrif á mig, hvernig ég sem texta og lög. Hún er líka bara svo frjáls í lífinu almennt, maður sér hversu vel hún nýtur sín á sviði. Hún er mikil fyrirmynd þegar kemur að tónlist.“
Hver er að þínu mati besta plata sem hefur verið gefin út eða sú sem skiptir þig mestu máli? „Mjög erfitt val en ég segi Blonde með Frank Ocean.“
Er rétt að þú hafir verið farin að vinna fyrir þér með gítarleik á götum Stokkhólms 11-12 ára gömul? „Það er vissulega rétt. Eins og ég nefndi hér fyrir ofan lærði ég á gítar í Svíþjóð þegar ég var yngri, sem er í raun eina tónlistarnámið sem ég hef verið í. Ég tók alltaf strætó á æfingar beint eftir skóla og var því lítill tími til að borða inn á milli. Þetta var líka á tímanum þar sem maður hafði ekki mikinn pening milli handanna (aðallega vasapeningur frá mömmu og pabba), þannig ég tók upp þá hefð að byrja að spila á torginu fyrir utan tónlistarskólann – aðallega til að kaupa mér McDonalds borgara og franskar! Það var alltaf tekið vel í spileríið, fólki fannst skemmtilegt að það væri verið að brjóta upp hversdaginn hjá þeim. Sem var mér í hag því þá gáfu þau mér smá klink.
Kom sigurinn í Músíktilraunum þér á óvart eða trúðir þú því að þú ættir góðan möguleika á að sigra? „Þegar ég fór í Músíktilraunir var ég aðallega spennt að leyfa fólki að heyra hvað ég hefði verið að bralla í tónlistinni. Ég hafði aldrei komið ein fram áður að spila og vildi athuga hvort það væri kannski eitthvað fyrir mig og fannst því Músíktilraunir vera fullkomin staður til að prófa. Þótt mér fyndist tónlistin sem ég væri að gera vissulega góð þá kom sigurinn mér algjörlega á óvart, ég hafði aldrei í raun þorað að hugsa að ég ætti séns að vinna. Sigurkvöldið varð algjör sæluþoka þar sem ég vissi ekki hvað ég ætti að gera við mig.“
Hvað hefur fylgt í kjölfarið á Músíktilraunum/ hvað heufr verið skemmtilegast eða mesta ævintýrið? „Úff, ég væri allan daginn að skrifa allt sem hefur fylgt Músíktilraununum, það er svo mikið. Ótal dyr hafa opnast og ég hef fengið að gera hluti sem Kolbrún fyrir ári þorði bara að láta sig dreyma um að gera einn daginn. Ég hef spilað á ótal tónleikum hér og þar, jafnvel fengið að spila í sjónvarpinu og útvarpinu. Mesta ævintýrið var líklegast að fá að spila í Gísla Marteini og fara til Hollands að spila. En það skemmtilegasta við þetta allt er sennilega fólkið sem ég hef fengið þann heiður að kynnast. Það er svo ótrúlega mikið af hæfileikaríku og yndislegu fólki í tónlistarlífinu á Íslandi sem er svo gott fyrir lítið og nýtt tónlistarhjarta eins og mig.“
Hver er frægasti tónlistarmaðurinn sem þú hefur hitt hingað til? „Hef hitt heilan helling af frábæru tónlistarfólki hér og þar. Hitti til dæmis á Pál Óskar þegar við spiluðum á Aldrei Fór Ég Suður hátíðinni á Ísafirði í apríl, það var magnað. En eitt stærsta móment sem ég man ennþá eftir var þegar ég fékk að hitta Zöru Larsson eftir tónleikana hennar í Laugardalshöll 2017.“
Hvort er skemmtilegra eða betri upplifun að búa til tónlist eða flytja hana á sviði/ hver er munurinn? „Ég get eiginlega ekki valið, þetta eru báðar svo frábærar upplifanir en á svo ólíkan hátt. Það er svo góð tilfinning að semja eitthvað nýtt og elska það sem þú ert að gera, einhver svona semí euphoria tilfinning. En svo þegar þú flytur það fyrir áhorfendur er eins og að hringrásin lokist og þú færð að láta það sem þú bjóst til njóta sín, og leyfa fólki að njóta þess.“
Og í lokin: Geturðu sagt lesendum frá einhverri skemmtilegri staðreynd, einhverju sem enginn veit um þig? „Það vita þetta nokkuð fáir um mig en þegar ég var á síðasta árinu mínu í menntaskóla fór ég í lögfræðiáfanga sem ég hafði mjög lítið gaman af. Ekki bætti það aðstæður að bókin sem ég þurfti að kaupa var dýr og það mátti ekki selja hana áfram. Í einhverjum mótþróa ákvað ég því að klippa bókina í sundur eftir önnina og bjó til úr henni helling af listaverkum sem ég kallaði „List fyrir lögfræðinga“. Ég seldi myndirnar á Instagram og náði með tímanum að tuttugufalda andvirði bókarinnar og gat svo sagt að það eina sem ég hafði grætt á áfanganum voru peningar. Þetta var smá svona win moment í mínu lífi og ég veit ennþá ekki hvort lögfræðikennarinn minn veit af þessu.“
- - - - -
Sex vinsælustu lögin í síma Kolbrúnar? „Ef ég skoða lögin sem ég hef hlustað mest á á Spotify síðan ég fékk aðganginn eru það:
Let‘s Fall in Love for the Night / FINNEAS
Fine Line / Harry Styles
3 Nights / Dominic Fike
What a Pleasure / Beach Fossils
Ég var að spá / RAKEL, JóaPé og CeaseTone
Can I Call You Tonight / Dayglow“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.