Ályktun Kvenfélags Rípurhrepps til Sveitastjórnar Skagafjarðar
Kvenfélag Rípurhrepps, sem er elsta kvenfélag landsins, vill með þessari ályktun lýsa yfir þungum áhyggjum sínum og eindreginni andstöðu við áform meirihluta sveitastjórnar Skagafjarðar ásamt Byggðalista, um að setja félagsheimili Rípuhrepps í opið söluferli og selja það til einkaaðila.
Frá stofnun félagsins hefur Kvenfélag Rípurhrepps átt lykilþátt í að byggja upp og reka félagsheimilið, sem hefur í áratugi verið hjarta samfélagsins okkar. Meðlimir kvenfélagsins hafa í áratugi lagt fram ómælda vinnu til að samfélagið eigi þar athvarf. Í húsinu hafa farið fram ótal menningarviðburðir, samkomur og samfélagsverkefni sem hafa styrkt samheldni og lífsgæði íbúa sveitarinnar í áranna rás.
Verði félagsheimilið selt úr sameign samfélagsins, eru allar líkur á að starfsemi félagsins leggist af. Þetta væri gríðarlegt áfall fyrir samfélagið, ekki aðeins vegna þess að um er að ræða elsta kvenfélag landsins, heldur líka vegna þess að kvenfélagið hefur verið einn af burðarásum félagsauðs og menningar í sveitinni.
Ljóst er að mikill meirihluti íbúa er mjög andvígur sölu hússins og teljum við því með öllu óásættanlegt að meirihluti sveitastjórnar og Byggðalisti gangi gegn vilja samfélagsins í þessu mikilvæga máli. Félagsheimilið er ekki aðeins hús heldur menningarleg og söguleg táknmynd okkar allra, það er órjúfanlegur hluti af sjálfsmynd sveitarinnar og vitnisburður um ómetanlegt framlag kvenna og annarra íbúa í byggðarlaginu.
Kvenfélag Rípuhrepps skorar á meirihluta sveitarstjórnar og Byggðalista að virða sögu félagsheimilisins í Hegranesi, hlusta á raddir íbúa og hætta við söluferlið. Við hvetjum til þess að kjörnir fulltrúar fari í samstarf við samfélagið í Hegranesi og finni lausnir sem tryggja áframhaldandi samfélagslega nýtingu hússins fyrir komandi kynslóðir.
Virðingarfyllst,
Elín Petra Gunnarsdóttir formaður, fyrir hönd Kvenfélags Rípurhrepps.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.