Vorið kom á beði af Lego-kubbum og Cheerios

Magnúsi Frey Gíslasyni á Sauðárkróki er margt til lista lagt. Arkitektinn, hönnuðurinn og húsgagnasmiðurinn sýslar einnig við tónlist og hefur til að mynda um langan tíma verið í hljómsveitinni Stafrænn Hákon. Nú á dögunum sendi hann þó frá sér hið undurfallega lag Vor, í eigin nafni. „Lagið varð til á fimm mínútum þar sem ég gekk á beði af Lego kubbum og Cheerios í miðri Covid leikskólalokun,“ tjáir Magnús Freyr Feyki.

„Þetta rólega lag er því alger andstæða þeirra aðstæðna sem það er samið í. Svo tók ég það upp á símann og sendi á Halldór Gunnar Pálsson kunningja minn. Hann var í svipuðum aðstæðum og gat tekið að sér upptökustjórn á laginu.“

Auk þess að semja bæði lag og texta þá syngur Maggi lagið og sá um útsetningu ásamt Halldóri Gunnari sem sá um upptöku og spilaði á gítar. Óskar Þormarsson spilar á trommur, Valdimar Olgeirsson kontrabassa og Halldór Smárason spilar á píanó. Bassi Ólafsson sá um mix og master.

Ertu mikið að búa til músík? „Ég á mikið af lögum sem hafa ekki passað inn í vinnu mína með Stafrænn Hákon. Svo bætist alltaf nýtt við, ég les ekki bækur til að slappa af, ég spila á gítar. Nú er bara að vona að ég nái að halda dampi og komi fleiri lögum í ferli."

Hægt er að hlusta á Vor á Spotify >

 /ÓAB

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir