Aukatónleikar á Skagfirska tóna
Nú er nánast uppselt á tónleikana Skagfirskir tónar sem Hulda Jónasdóttir stendur fyrir næsta laugardagskvöld á Gránu Bistro á Sauðárkróki en þar verða flutt lög eftir skagfirskar tónlistarkonur. Því hefur verið ákveðið að blása til aukatónleika sama dag kl 17. Hulda segir fólk hafa tekið vel í smá upplyftingu í lok Sæluviku og aðeins séu örfáir miðar eftir. Segir hún að félagar í Félagi eldri borgara í Skagafirði fái 50 % afslátt af miðaverðinu á þá tónleika svo það er um að gera að bregðast skjótt við og tryggja sér miða.
Hulda situr sjaldan auðum höndum og er því nóg að gera í tónleikahaldi hjá henni á árinu og segir hún marga skemmtilega tónleika framundan. Þann 15. maí næstkomandi verða gömlu góðu dægurlögin flutt og nefnist Út við himinbláu sundin. Þeir tónleikar verða í Salnum í Kópavogi og í október fá gömlu góðu íslensku sjómannalögin að hljóma en sá viðburður nefnist Hafið lokkar og laðar og verða einnig í Salnum.
„Svo erum við að fara af stað í sumar með tónleikaprógramm sem heitir Lögin hans Geira. Þar ætlum við að flytja lög Geirmundar Valtýssonar en hann á svo ótrúlega mörg falleg lög sem heyrast allt of sjaldan en við ákváðum að dusta rykið af nokkrum þeirra og hver veit nema við komum við á Króknum og leyfum ykkur að heyra,“ segir Hulda og og bætir við að Geirmundur sjálfur verði heiðursgestur á tónleikunum. „En annars eru það fimm frábærir ungir söngvarar ásamt fimm manna bandi sem ætla að flytja lögin. Og við erum svo ótrúlega heppin að hann Geiri hefur lofað okkur nýju efni sem við munum frumflytja á tónleikunum.“
Fylgjast má með framvindu viðburða á Facebooksíðunni Gná tónleikar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.