Tilfinningar frá myrkri til ljóss

Þátttakendur í Miðnæturljósi. MYNDIR: AÐSENDAR
Þátttakendur í Miðnæturljósi. MYNDIR: AÐSENDAR

Dagana 25. nóvember til 1. desember komu ungmenni frá sveitum Toskana á Ítalíu, Pyhtää í Finnlandi og Húnaþingi vestra á Íslandi saman til þátttöku í Miðnæturljósi, Erasmus+ verkefni, sem miðar að því að hvetja til sköpunar og sjálfstjáningar. Íslenski hluti verkefnisins var skipulagður í samstarfi við Húnaklúbbinn, sem er félag ungs fólks í Húnaþingi vestra, og Félagsmiðstöðina Órion.

Miðnæturljós fjalla um tilfinningar á breiðum skala, allt frá „myrkri“ til „ljóss“, í gegnum sjónlistir og sviðslistir. Í vikunni lærðu þátttakendur að tjá sig betur og efla sjálfsmynd sína. Starfsemin miðaðist við fjögur meginþemu – náttúru, tíma, ljós og tækni – og innihélt ljósmyndun með ljósum, landslagsmálun, skuggaleikhús, spunaleik og ígrundaðar umræður.

Áhersla var lögð á andlega vellíðan og á að hvetja þátttakendur til að kanna eigin tilfinningar og byggja upp seiglu með tengingu við náttúruna og samfélagið sitt. Andleg vellíðan er stórt málefni meðal ungs fólks í dag og verkefni eins og Miðnæturljós skapa vettvang til að takast á við þetta á uppbyggilegan hátt. Með því að efla sjálfstjáningu og tengsl hjálpa slík verkefni ungmennum að takast á við áskoranir lífsins á sama tíma og þau njóta og fagna hæfileikum sínum. Að efla ungmenni með svona verkefnum styrkir ekki aðeins framtíð þeirra heldur líka samfélögin sem þau tilheyra.

Aðstandendur verkefnisins vilja nýta tækifærið og þakka sérstaklega Húnaþingi vestra, starfsfólki Kaupfélags Vestur-Húnvetninga og stjórn Húnaklúbbsins fyrir ómetanlegan stuðning og vinnuframlag sem gerði þetta verkefni að veruleika.

     

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir