Góður árangur skagfirskra pílukastara

Þórður Ingi, Jón Oddur, Arnar Geir og Arnar Már voru slegnir út í undanúrslitum í liðakeppninni. MYND: PSK
Þórður Ingi, Jón Oddur, Arnar Geir og Arnar Már voru slegnir út í undanúrslitum í liðakeppninni. MYND: PSK

Íslandsmót félagsliða í pílukasti fór fram um helgina og sendi Pílukastfélag Skagafjarðar fullmannað lið til keppni í karlaflokki. Leikið var bæði laugardag og sunnudag. Byrjað var á tvímenning og komust tvö af fjórum liðum upp úr riðlum, Arnar Már og Þórður Ingi duttu út í 16 liða úrslitum en Arnar Geir og Jón Oddur voru slegnir út í 8 liða úrslitum.

Keppni í einmenning fór svo af stað strax í kjölfarið en þar gekk leikmönnum ekki nógu vel og áttu í erfiðleikum. Arnar Geir, Þórður Ingi og Hlynur Freyr fóru lengst en einungis í 32 manna úrslit.

Liðakeppni var svo spiluð á sunnudeginum. Arnar Geir, Arnar Már, Jón Oddur og Þórður Ingi skipuðu A-liðið en í B-liðinu voru Einar Gíslason, Hlynur Freyr, Ingvi Þór og Júlíus Helgi. B-liðið komst ekki uppúr sínum riðli þrátt fyrir góða báráttu í ógnarsterkum riðli. A-liðið komst áfram úr riðlinum eftir sigur í miklum spennuleikjum gegn Pílukastfélagi Reykjavíkur og Pílufélagi Grindavíkur. í 8 liða úrslitum mættu þeir síðan Pílufélagi Akraness og fóru með sigur þar í æsispennandi leik sem fór alla leið í oddalegg. Í undanúrslitum mættu þeir siðan Pílufélagi Reykjanesbæjar en þar var við ofurefli að etja. 3-4 sætið niðurstaðan hjá A-liðinu.

Pílukastfélag Skagafjarðar endaði í 6. sæti í heildarkeppninni af níu liðum sem mættu til leiks. „Við erum ánægðir með árangur liðsins, náðum að safna fleiri stigum en á síðasta ári og stefnum enn hærra næst,“ segir Arnar Geir í tilkynningu frá PSK.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir