Hver er maðurinn og hvað vill hann upp á dekk? | Björn Bjarki Þorsteinsson skrifar

Björn Bjarki Þorsteinsson.MYND AÐSEND
Björn Bjarki Þorsteinsson.MYND AÐSEND

Á fjölmennu kjördæmisþingi Sjálfstæðismanna sunnudaginn 20. október sl. hlaut undirritaður kosningu í 2. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir Alþingiskosningar sem fram fara þann 30. nóvember 2024. Fyrir þann stuðning er ég afar þakklátur og mun nálgast komandi verkefni bæði af auðmýkt en ekki síður metnaði fyrir hönd kjördæmisins alls.

Frá unga aldri hef ég tekið þátt í pólitísku starfi en aldrei hef ég setið á framboðslista í Alþingiskosningum. Ég var oddviti Sjálfstæðismanna í sveitarstjórn Borgarbyggðar í 12 ár og í 16 ár sat ég samfellt í sveitarstjórn Borgarbyggðar. Ég taldi að ég væri hættur afskiptum af sveitarstjórnarmálum og í raun pólitík en í júlí 2022 bauðst mér starf sveitarstjóra í Dalabyggð og það skemmtilega starf og þau verkefni sem ég hef tekist á við í Dölunum hafa kveikt þann neista í huga mér að ég ákvað að gefa kost á mér í 2. sæti framboðslista D-listans í kjördæminu víðfeðma.

Í 15 ár gegndi ég starfi framkvæmdastjóra hjúkrunarheimilisins Brákarhlíðar í Borgarnesi og sat jafnframt í stjórn Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu í 10 ár, lengst af sem varaformaður stjórnar en seinustu misseri þeirrar stjórnarsetu gegndi ég hlutverki formanns. Sú reynsla sem ég hlaut af starfi í heilbrigðisgeiranum mun nýtast mér vel auk þeirrar reynslu sem ég hef af vettvangi sveitarstjórnarmála.

Það hefur verið afar gefandi og skemmtilegt að fá að taka þátt í þeirri vinnu sem við höfum verið í undanfarin rúmlega tvö ár í Dölunum. Kraftur og samkennd einkennir samfélagið og hef ég reynt eftir fremsta megni að vekja athygli á þeim innviðum sem þarfnast úrbóta við í Dölunum og í raun út um allt land í samstarfi og samráði við mína umbjóðendur. Ég tel mig ekki vera að hlaupast frá borði með því að gefa kost á mér til setu á Alþingi og mögulega yfirgefa mitt góða starf því á Alþingi gefast tækifæri til að láta gott af sér leiða í þágu samfélagsins áfram en í víðari mynd með því að hafa kjördæmið og í raun landið allt undir.

Mitt leiðarstef snýr fyrst og síðast að aðstæðum okkar íbúa kjördæmisins alls og hvernig lífsskilyrði við viljum búa við og hvernig við búum að atvinnulífinu. Þar kemur megininntak og grunnstef Sjálfstæðisstefnunnar sterkt inn í mínum huga, stétt með stétt, og frelsi einstaklings til athafna, þann kjarna þurfum við að nálgast í störfum okkar, þau okkar sem mögulega veljast til setu á framboðslistum Sjálfstæðisflokksins út um land allt.

Kjördæmið er bæði víðfeðmt og atvinnulíf fjölbreytt. Staða bænda stendur mér nærri nú eftir að ég hóf störf í Dalabyggð sem er ein af matarkistum landsins ef svo má segja, líkt og mörg önnur svæði innan kjördæmisins, við þurfum að ná fram ásættanlegum lífsskilyrðum fyrir þá sem í þeirri grein starfa líkt og í öðrum atvinnugreinum.

Efnahagsmál og hvernig haldið er á þeim skipta miklu máli og að mínu mati eru gríðarleg tækifæri til þess að nýta fjármuni með skilvirkari hætti en nú er gert í ríkisrekstrinum. Einnig er mitt hjartans mál allir dýrmætu innviðirnir okkar og skiptir þá engu hvar borið er niður fæti, í heilbrigðismálum, vegamálum, menntamálum, raforkumálum, umhverfismálum og áfram mætti telja. Það er svo sannarlega verk að vinna til að bæta aðbúnað, í kjördæminu öllu, sama í hvaða horni er.

Ágæti lesandi, til glöggvunar á því hvað ég hef m.a. verið að brölta síðustu misseri til að vekja athygli á málstað Dalabyggðar og í raun landshlutans og landsbyggðarinnar allrar hef ég m.a. ritað greinar til að vekja athygli á ákveðinni mismunun sem við í Norðvesturkjördæmi búum við sem má nálgast hér.

Við hlökkum til að hitta ykkur um allt kjördæmi

Ég mun leggja mig fram um að verða þingmaður kjördæmisins alls, hlusta eftir sjónarmiðum íbúa, atvinnulífs, sveitarstjórna og allra annarra hagsmunaaðila því í mínum huga er þingmannsstarfið fyrst og síðast þjónustuhlutverk í þágu skattgreiðenda og landsmanna allra.

Ágæti lesandi, það er verk að vinna og við frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins, sem öll erum búsett í kjördæminu og munum búa þar áfram, erum svo sannarlega tilbúin til að berjast fyrir hagsmunum kjördæmisins á komandi misserum og árum. Það munum við gera í samstarfi við ykkur kjósendur og hlökkum til að hitta ykkur og eiga samtal um allt kjördæmi á næstu vikum.

Björn Bjarki Þorsteinsson

Undirritaður skipar 2. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi og gegnir starfi sveitarstjóra í Dalabyggð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir