Stólastúlkur sóttu sætan sigur í naglbít í Njarðvík
Stólastúlkur gerðu heldur betur góða ferð í Njarðvík í gær en þar mættu stelpurnar liði heimastúlkna í fyrsta leik þeirra í glæsilegri nýrri IceMar-höll. Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann, liðin náðu af og til smá áhlaupum en andstæðingurinn svaraði jafnan fyrir sig skömmu síðar. Sigurkarfa Tindastóls kom 10 sekúndum fyrir leikslok þegar Oumoul Sarr kom boltanum í körfuna eftir skrítna sókn en síðan stóðu stelpurnar vörnina vel á lokasekúndunum og uppskáru eins stigs sigur, 76-77.
Leikurinn var jafn frá fyrstu mínútu og skiptust liðin á um að hafa forystuna. Mest náðu Stólastúlkur fjögurra stiga forystu, 10-14, en jafnt var að leikhlutanum loknum, 22-22. Áfram hélt baráttan í öðrum leikhluta sem Njarðvíkingar byrjuðu betur. Í stöðunni 29-24 tók Israel Martin leikhlé sem skilaði síðan 8-0 kafla. Þegar þrjár mínútur voru til hálfleiks skilaði þristur frá Emmu Katrínu liði Tindastóls fjögurra stiga forystu, 33-37, en það var einmitt munurinn í hálfleik. Staðan þá 37-41.
Lið Tindastóls hélt frumkvæðinu fram í miðjan þriðja leikhluta en í stöðunni 42-48 skrúfaðist fyrir stigaskorið hjá gestunum og Njarðvíkurliðið gerði tólf stig í röð. Emma braut ísinn með ágætri körfu fyrir Tindastól og skömmu síðar var allt orðið jafnt á ný. Sarr jafnaði metin á lokasekúndu leikhlutans og staðan 56-56 fyrir lokaátökin. Lið Njarðvíkur var skrefinu á undan fyrstu mínúturnar í fjórða leikhluta en komst níu stigum yfir, 67-58, þegar sex mínútur voru til leiksloka.
Gestirnir voru ekki á því að gefast upp og Randi Brown, sem var frábær í leiknum, skellti í þrist en Sara Logadóttir svaraði að bragði eins og hún á kyn til. Þá komu tveir þristar á sömu mínútunni frá Klöru Sólveigu og staðan 70-67. Heimastúlkur héldu 3-5 forystu og staðan var 74-69 þegar rétt rúmar tvær mínútur voru til leiksloka. Þá komu tveir þristar frá Randi og gestirnir komnir yfir. Brittany Dinkins setti niður tvö víti fyrir Njarðvík og næstu sóknir liðanna fóru forgörðum. En sem fyrr segir kom Sarr til bjargar, náði frákasti undir körfu Njarðvíkur eftir skot frá Ingu Sólveigu, losaði sig við varnarmann með góðri hreyfingu og setti boltann í körfuna. Njarðvíkingar tók leikhlé fyrir sína lokasókn og uppskáru opið skot frá Láru Ösp, það geigaði og eftir mikla baráttu um boltann undir körfunni rann leiktíminn út og Stólastúlkur fögnuðu kampakátar góðum sigri.
Stigahæst í liði Tindastóls var Randi Brown með 32 stig og Sarr gerði 18 stig. Allar skiluðu stelpurnar sínu, bæði í sókn og vörn, og baráttuandinn og seiglan var til algjörrar fyrirmyndar. Klara Sólveig og Paula gerðu báðar níu stig en Klara var með þrjá þrista í leiknum í níu tilraunum en eins og sönn skytta þá var hún ekki feimin við að skjóta þó illa gengi og uppskar tvo hrikalega mikilvæga á lokakaflanum.
Næsti leikur er í Síkinu 22. október en þá kemur lið Vals í heimsókn en síðan virðast fylgja í kjölfarið fjórir útileikir. Fyrsti leikurinn í þeirri runu er á Akureyri – það verður eitthvað.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.