Útsölutips!

Á útsölum er hægt að gera frábær kaup, ef þú veist af hverju þú ert að leita. Að fara á þær bara af því að allir aðrir gera það endar yfirleitt að maður kaupir einhverja vitleysu. Þetta gerðist svolítið oft hjá mér í innkaupaferðunum erlendis því þar fékk maður lítinn tíma til að fara í búðir, eins og t.d. H&M. Allt svo ódýrt og allt keypt sem þótti flott. Þegar uppi var staðið var þetta alls ekki ódýrt því maður notaði bara brot af þessu öllu. Góð kaup ekki satt!

Það gerist oft hjá okkur Íslendingum að það myndast múgæsingur við alla skapaða hluti, við erum nefnilega svo agalega áhrifagjörn, og þá er svo auðvelt að selja okkur allan fjandann. Þeir sem kunna að markaðsetja vörur, þjónustu og viðburði fara létt með þetta og til eru mörg góð dæmi. Það er samt alveg gefið mál að þeir sem eru fyrstir í búðirnar þegar útsölurnar byrja ná að kaupa það sem er flottast og klárast þær vörur yfirleitt mjög fljótt og því vert að fylgjast með þeim verslunum sem eru í uppáhaldi hjá þér svo þú missir nú ekki af flíkinni sem þig langaði svo agalega í fyrir jólin en fékkst ekki í jólagjöf því makinn þinn náði ekki skilaboðunum.  

 

Leyndarmálið um bestu kaupin

Það eru nokkrir vöruflokkar sem hægt er að gera góð kaup á eins og t.d. nærföt, því það eru fáir sem spá í hvað er í tísku í þeim geira, við kaupum yfirleitt það sem okkur finnst þægilegt. Allir fylgihlutir eins og hattar, húfur, töskur, belti, klútar, treflar, hanskar og allt skart er eitthvað sem læðist oft inn í útsölurekkana og vert að skoða til að lífga upp á hversdagsleikann hjá sér. En varðandi fatnaðinn þá getur verið erfitt að gera góð kaup sem nýtast manni vel, nema kannski það sem flokkast undir að vera klassískt. Eigendur búðanna halda í þennan fatnað eins og gull, því jú þetta er gull fyrir þá því sölutíminn er lengri. Þessi vara er reyndar oft tekin inn í aukalitum sem eiga kannski ekki heima í litaflórunni fyrir næsta „season“ þannig að þar er mögulega hægt að næla sér í góðar flíkur í skemmtilegum litum á góðum verðum. 

En litla leyndarmálið er að maður gerir bestu kaupin í litlu búðunum út á landi. Ég varð mjög oft vör við það þegar ég var að vinna í heildsölu, að þær voru að setja vörur á útsölu sem okkur datt ekki í hug að setja smá afslátt á í Reykjavík. Þetta lýsir svolítið hugsunarhættinum hjá litla verslunareigendanum. Útsölur eru til að losa og rýma fyrir nýjum vörum. Þær eru ekki með endalaust lagerpláss og neyðast stundum til að setja gullið á útsöluna. Stóri verslunareigandinn er með fullkomið lagerkerfi sem er auðelt að vinna með og skoða hversu mikið er búið að hagnast á hverri og einni vöru og rýna því oft í krónutölur þegar undirbúningur á útsölunni er. Oftar en ekki tíma þeir stundum ekki að setja meiri afslátt, því hagnaðurinn er ekki orðinn nógu góður á tiltekinni vöru. En hvort ætli sé betra að selja vöruna með góðum afslætti í byrjun útsölu, þegar mesta traffíkin er, eða eiga hana í birgðum eftir útsöluna því hún selst ekki?  

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir