Stólastúlkur úr fallsæti eftir seiglusigur á Árbæingum

Laura Rus fagnar sigurmarki sínu í leiknum. MYNDIR: ÓAB
Laura Rus fagnar sigurmarki sínu í leiknum. MYNDIR: ÓAB

Tindastóll og Fylkir mættust í fallbaráttuslag í Pepsi Max deild kvenna á Króknum í gær. Leikurinn var því gríðarlega mikilvægur fyrir bæði lið og úr varð sæmilegasti naglbítur en eftir að Stólastúlkur náðu tveggja marka forystu í fyrri hálfleik minnkuðu Fylkisstúlkur muninn í síðari hálfleik og sóttu hart að marki Tindastóls á lokakaflanum. Gestirnir náðu þó ekki að jafna og lið Tindastóls fagnaði dýrmætum sigri og lyfti sér upp í áttunda sæti deildarinnar og þar með úr fallsæti. Lokatölu 2-1 fyrir Tindastól.

Það er óvíst að knattspyrnuleikur hafi verið spilaður í betra veðri á Króknum en í gær (hlýtur þó að vera því á Króknum er alltaf logn og blíða) en boðið var upp á létta og hlýja golu, ríflega 20 stiga hita og sól á löngum köflum. Laura Rus var mætt í byrjunarlið Stólanna og virkaði frísk. Lið Tindastóls fór vel af stað og strax á 2. mínútu komst Murr framhjá markverði Fylkis en færið var þröngt og veikt skot hennar var varið á línu. Á sjöundu mínútu fékk Murr svo boltann frá Bryndísi inni á vallarhelmingi gestanna og lítil hætta virtist vera á ferðum. Hún náði þó að snúa á varnarmenn Fylkis, setti í túrbóið og var á einu augabragði komin inn fyrir vörnina og skoraði síðan af öryggi í nærhornið. Næstu mínútur héldu Stólastúlkur áfram að ógna en smám saman féll liðið aftar á völlinn og lið Fylkis fór að gera sig líklegt upp við mark Tindastóls en eins og oft áður í sumar þá var Amber frábær á milli stanganna. Upp úr miðjum hálfleik komst lið Tindastóls aftur á ferðina og fékk innköst og hornspyrnur á álitlegum stöðum. Upp úr hornspyrnu frá Jackie á 28. mínútu féll boltinn út í teig þar sem Laura Rus var ein og yfirgefin og hún þrumaði boltanum á milli varnarmanna Fylkis og í markið. Vel gert. Fram að hálfleik hélt Amber áfram að sýna sínar bestu hliðar og lið Tindastóls leiddi 2-0 í hálfleik.

Það mátti reikna með að gestirnir kæmu uppgíraðir til leiks í síðari hálfleik en engu að síður var jafnræði með liðunum framan af. Eftir um stundarfjórðungsleik fékk Murr færi til að gulltryggja sigur Stólanna, komst ein í gegn en í stað þess að fara framhjá Tinnu Brá í markinu reyndi hún að klobba hana en Tinna sá við henni. Frískir stuðningsmenn í stúkunni óttuðust að þessi afbrennsla ætti eftir að bíta Stólastúlkur í rassinn og spennustigið í leiknum rauk sannarlega upp þegar Fylkisstúlkur minnkuðu muninn á 70. mínútu. Þá átti Þórdís Elva frábæra sendingu inn fyrir vörn Tindastóls, sem virtist ekki með einbeitinguna í lagi, Helena Ósk var eldsnögg að stinga sér inn fyrir og sendi boltann milli fóta Amber og í markaði rúllaði boltinn. Í kjölfarið færðist lið Tindastóls enn aftar og leikmenn einbeittu sér að því að halda stöðum og gefa helst engin færi. Þetta þýddi þó að Fylkisstúlkur voru oft með boltann óþægilega nærri vítateig Tindastóls og þær reyndu ítrekað að senda boltann í hættusvæðin inni á teig Tindastóls. Stólastúlkur vörðu hins vegar af grimmd stigin þrjú sem voru komin í innkaupakörfuna – náðu svo að gera upp og keyra dýrmæt stigin heim.

Það var mikið undir í leiknum og á köflum var pínu skjálfti í varnarleik Tindastóls sem hefur átt betri leiki. Það er því ekki amalegt að Amber Michel sé í fantaformi og tekur 4-5 magnaðar vörslur í hverjum leik og gerir sárafá mistök. Í gær var hún sem fyrr kvik og óttalaus, varði vel á línunni og nokkrum sinnum óð hún út í teig til að stöðva vænlegar sóknir Fylkis. Nýr leikmaður Tindastóls, Laura Rus, kom vel inn í liðið og í gær var ekki annað að sjá en að hún ætti að nýtast liðinu vel; er klók, áræðin, heldur boltanum vel og getur leyst flóknar stöður. Í gær gerði hún sigurmark leiksins. Tilkoma hennar ætti að létta pressunni af Murr og gefa henni tækifæri á að komast í meiri snertingu við boltann og liði Tindastóls meiri möguleika á að færa sig framar á völlinn og halda boltanum – það fer svo mikil orka í það að elta boltann í 90 mínútur. Eins og oft áður voru Stólastúlkur á köflum alltof gjarnar á að þruma boltanum upp kantana við fyrsta tækifæri og án þess að vera undir verulegri pressu. Liðið sýndi á köflum að það er þess vel megnugt að spila boltanum – eitthvað sem sannarlega gleður stuðningsmenn liðsins. Það vantaði ekkert upp á baráttuna í gær en úrslitasendingarnar, fyrirgjafir utan af kanti í opnum leik, rötuðu sjaldnast rétta leið að þessu sinni. Að næla í þrjú stig var hins vegar það sem skipti máli og því verki skiluðu stelpurnar með þrautsegju.

Sem fyrr segir kom sigurinn liði Tindastóls úr fallsæti, uppfyrir lið Fylkis og Keflavíkur. Tindastóll er með ellefu stig en Keflavík og Fylkir níu. Þór/KA og ÍBV eru fyrir ofan Stólastúlkur með 13 stig en næsti leikur Tindastóls er einmitt í Eyjum á sunnudaginn. Það yrði gríðarlega sterkt að ná í góð úrslit þar.

Áfram Tindastóll!

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir