Sjón að sjá þegar Silfrastaðakirkju var rennt út á Krók
Það hefur legið fyrir í talsverðan tíma að Silfrastaðakirkja í Blönduhlíð í Skagafirði þyrfti á nauðsynlegri yfirhalningu að halda. Fyrir nokkru var kirkjuturninn fjarlægður og í gær var kirkjan tekin af grunni sínum, hífð upp á vörubílspall og keyrð út á Krók til viðgerðar á Trésmiðjunni Ýr. Samkvæmt heimildum Feykis er reiknað með að viðgerðin geti tekið fjögur ár en kirkjan er 125 ára gömul í ár og ansi lúin.
Það var ekki hlaupið að því að koma kirkjunni upp á pall, þurfti talsverða útsjónarsemi til við verkið en nokkra tíma tók að ná góðu taki á kirkjunni áður en stóreflis byggingakrani hífði hana á bílinn. Það voru Einar Halldórsson og starfsmenn á Ýr sem stóðu að flutningunum ásamt starfsmönnum hjá verktakafyrirtækinu Þ. Hansen ehf. Kirkjunni var síðan ekið út Blönduhlíðina, vestur yfir Hegranes og að verkstæði Ýrara á Sauðárkróki. Einbreiðar brýr á leiðinni reyndust hindrun en ekkert fékk stöðvað ferðalag Silfrastaðakirkju sem endaði um kvöldmatarleytið.
Í frétt á mbl.is má finna eftirfarandi lýsingu á kirkjunni sérstöku: „Silfrastaðakirkja var byggð árið 1896 og hefur sett sterkan svip á umhverfi sitt, undir háum fjöllum. Hefur hvílt á eins konar grjótpúða á jörðinni og er fótstykki orðið mjög fúið. Þá er gólfið sigið. Þetta er meðal þess sem starfsmenn í Trésmiðjunni Ýri á Sauðárkróki munu bæta. Nokkrir mánuðir eru frá því turnspíra kirkjunnar var tekin ofan og farið með hana í viðgerð. Að grunnformi er Silfrastaðakirkja áttstrend, 6,5 m að þvermáli en hliðar 2,70 m að lengd. Þakið er krossreist upp af hliðarveggjum og tengt stöpli. Kirkjan er klædd sléttu járni. Á sex hliðum eru bogadregnir steypujárnsgluggar.“
Hér að neðan gefur að lýta nokkrar prýðilegar ljósmyndir frá flutningunum. Ferköntuðu myndirnar sendi Drífa Árnadóttir Feyki en aðrar myndir tók Jón Arnar Pétursson.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.