Margmenni í opnu húsi Byggðastofnunar
Byggðastofnun bauð síðasta föstudag gestum og gangandi að koma og fagna með starfsfólki stofnunarinnar að hafa tekið í notkun nýtt og glæsilegt húsnæði undir starfsemi sína á Sauðárkróki. Ekki stóð á gestakomunni og segir Aðalsteinn Þorsteinsson, forstjóri, ánægjulegt að sjá þann áhuga sem fólk sýnir starfsemi stofnunarinnar og þeim verkefnum sem hún vinnur að.
Aðalsteinn segir að fjöldi fólks hafi heimsótti stofnunina þennan dag en viðurkennir að hafa klikkað á að telja. „ Ánægjulegt er að sjá þann áhuga sem fólk sýnir starfsemi stofnunarinnar og þeim verkefnum sem hún vinnur að. Húsið og búnaður þess hefur reynst okkur vel, hönnun þess og smíði er af mjög háum gæðum og verktökum til sóma. Áhersla var lögð á að húsið sé bjart og fallegt og bjóði upp á sveigjanleika þannig að starfsemin geti þróast áfram ásamt því að hljóðvist og loftgæði og öll vinnuaðstaða sé svo góð sem verða má,“ segir hann.
Starfsfólk flutti í húsið um miðjan júní 2020 og hefur því verið í nýjum húsakynnum í um 16 mánuði en ekki getað haldið opnunarhátíð fyrr en nú. „Það má því kannski segja að við höfum legið hér í leyni frá því að við fluttum inn, en eftir að samkomutakmörkunum vegna Covid 19 var aflétt hefur verið mikið um heimsóknir til okkar og við höfum tekið á móti hópum af ýmsum stærðum á skemmri og lengri fundi. Það má segja að húsið iði nú af lífi,“ segir Aðalsteinn.
Feykir kíkti í heimsókn og tók eftirfarandi myndir í upphafi veislunnar.
Tengd frétt: Opið hús hjá Byggðastofnun
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.