Forsetafrúin á brúðulistahátíð í Húnaþingi vestra

Eliza Reid var heiðursgestur brúðulistahátíðarinnar á Hvammstanga sem fram fór um sl. helgi. Nýtti hún ferðina til annarra heimsókna en hér er hún ásamt Aisha Abed Alhamad Alalou og Guðrúnu Helgu Marteinsdóttur. Mynd: Gunnar Rögnvaldsson.
Eliza Reid var heiðursgestur brúðulistahátíðarinnar á Hvammstanga sem fram fór um sl. helgi. Nýtti hún ferðina til annarra heimsókna en hér er hún ásamt Aisha Abed Alhamad Alalou og Guðrúnu Helgu Marteinsdóttur. Mynd: Gunnar Rögnvaldsson.

Um liðna helgi var alþjóðlega brúðulistahátíðin Hip festival haldin á Hvammstanga og var Forsetafrúin Eliza Reid heiðursgestur á hátíðinni ásamt Eddu dóttur sinni, en Eliza er verndari menningarverðlauna Eyrarrósarinnar sem Handbendi atvinnubrúðuleikhús á Hvammstanga er núverandi handhafi af. Að sögn Gunnars Rögnvaldssonar, sem fylgdi Elizu í heimsókninni, voru fjölmargir viðburðir á dagskránni sem sannarlega eru á heimsmælikvarða.

Leiksýningar, vinnustofur, fyrirlestrar og kvikmyndasýningar voru þar á meðal og drógu að sér fagfólk og gesti hvaðanæva að. Eliza snæddi kvöldverð á Sjávarborg á fimmtudagskvöldið með skipuleggjendum hátíðarinnar sem Greta Clough eigandi Handbendis hefur borið hitann og þungann af.

Á föstudeginum heimsóttu þær mæðgur einnig dvalarheimilið, grunnskólann, Selasetrið og Verslunarminjasafnið auk þess að taka þátt í vinnustofu í skuggamyndagerð hjá Handbendi og heimsóknin endaði síðan á leiksýningu í Félagsheimilinu.

„Ég lagði leið mína á Hvammstanga í gær [föstudaginn 8. október] til að njóta hátíðarinnar, en ferðina nýtti ég um leið til að heimsækja sjúkrahúsið á Hvammstanga og dagvistun eldri borgara þar. Þá skoðaði ég glæsilega nýja viðbyggingu við grunn- og tónlistarskólann, heimsótti Selasetur Íslands og kom við í Gallerí Bardúsa, þar sem er bæði verslunarminjasafn og sala á handverki eftir íbúa í Húnaþingi. Ég naut þess að hitta fólk og kynnast betur samfélaginu á Hvammstanga. Fleiri myndir og upplýsingar má sjá á Instagram hjá mér, undir „Hvammstangi“. Hér með sendi ég þakkir til allra sem tóku svona vel á móti mér, ekki síst til Gunnars Rögnvaldssonar forstöðumanns safna, sem fylgdi mér gegnum daginn,“ skrifar Eliza á Facebooksíðu sína en þar má sjá fleiri myndir og frásögn Elizu, https://www.facebook.com/elizajeanreid.

Meðfylgjandi myndir tók Gunnar Rögnvaldsson og Eliza Reid.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir