Fréttir

Hagnaður ársins 2023 hjá KS var 5,5 milljarðar króna

Aðalfundur Kaupfélags Skagfirðinga var haldinn í Menningarhúsinu Miðgarði í Varmahlíð þriðjudaginn 23. apríl. Á áttunda tug manna sátu fundinn en kjörnir fulltrúar voru eitthvað á sjötta tuginn auk starfsmanna og gesta. Ekki lágu stórar ákvarðanir fyrir fundinum en fram kom að KS skilaði 5,5 milljarða króna hagnaði árið 2023 en eignir kaupfélagsins voru bókfærðar á 88,6 milljarða í árslok 2023 og eigið fé nam 58,6 milljörðum.
Meira

Í syngjandi sveiflu – ennþá og að eilífu

Sveiflukóngurinn 80 ára var titillinn á stórtónleikum með lögum eftir Geirmund Valtýsson sem haldnir voru í Eldborgarsal Hörpu 6. apríl síðastliðinn. Geirmundur varð síðan 80 ára þann 13. apríl en ferill Geirmundar spannar töluvert fleiri áratugi en blaðamaður hefur verið til. Í tilefni af öllu þessu var ekki annað hægt en að hitta Geirmund og spjalla við kappann um ferilinn, lífið og Hörpu. Verslunarmannahelgarböllin, þar sem voru 700 manns á föstudegi, 1.000 manns á laugardegi og aftur 700 á sunnudegi, voru frábær og svo voru seldir 1.700 miðar í Miðgarð Landsmótshelgina 1971. Það var svo mikil traffík á böllunum frá 1974-1980. Þetta er tíminn sem stendur upp úr hjá Geirmundi en þó rifjast margt skemmtilegt upp frá ferlinum sem einhver ykkar hafa kannski heyrt eða lesið áður en aldrei er góð vísa of oft kveðin.
Meira

Rusl plokkað um allan Skagafjörð

Umhverfisdagur Fisk Seafood var laugardaginn 4. maí sl. og hefur aðsóknin aldrei verið meiri. Fjöldi fólks plokkaði rusl um allan Skagafjörð og var ræst til verks á slaginu tíu.
Meira

Helgi stoltur af öllum stelpunum

„Ég veit ekki með lukku en það munaði allavega ótrúlega mjóu í síðustu tveimur leikjum að sigurinn hefði verið okkar,“ sagði Helgi þjálfari Margeirsson þegar Feykir spurði hann hvort það hefði bara verið lukkan sem réð úrslitum í viðureign Tindastóls og Aþenu í gærkvöldi. Aþena hafði betur eftir hnífjafnan leik og tryggði sér því sæti í Subway-deildinni, sigraði einvígi liðanna 3-1.
Meira

Skagstrendingar plokka á uppstigningardag

Fimmtudaginn 9. maí, á sjálfan uppstigningardag, stendur Sveitarfélagið Skagaströnd fyrir umhverfis- og plokkdegi. Því eru íbúar hvattir til þess að stökkva út í sumarið og plokka rusl á opnum svæðum í sveitarfélaginu og fegra sitt helsta nærumhverfi.
Meira

Draumur Stólastúlkna varð ekki að veruleika þetta vorið

Draumur Stólastúlkna um sæti í Subway-deildinni í haust rættist ekki þetta vorið en mikið óskaplega voru þessir síðustu þrír leikir gegn liði Aþenu spennandi. Fjórði leikur liðanna fór fram í Síkinu í gærkvöldi og lið Tindastóls varð að næla í sigur til að tryggja sér oddaleik. Leikurinn var hnífjafn – þá erum við að tala um að hann var HNÍFJAFN allan tímann – og staðan til dæmis 72-72 þegar tvær mínútur voru til leiksloka. Eins og í þriðja leiknum reyndist Sianni Martin það sem skildi á milli á lokasekúndunum og lið Aþenu gerði fimm síðustu stig leiksins. Lokatölur 72-77 og Aþena vann þar með einvígið 3-1.
Meira

Leikjum ýmist frestað eða þeir færðir til

Sauðárkróksvöllur er í lamasessi líkt og flestum ætti að vera kunnugt. Meistaraflokkur karla hjá Tindastóli átti að hefja keppni í 4. deild í kvöld og spila heima gegn liði Skallagríms. Leiknum hefur hins vegar verið frestað og færður aftur í júníbyrjun. Þá átti Bestu deildar lið Tindastóls að spila við Fylki á Króknum á morgun, fimmtudag, en sá leikur verður spilaður á Akureyri.
Meira

Blanda og Svartá til leigu frá og með sumrinu 2025

Húnahornið greinir frá því að laxveiðiárnar Blanda og Svartá hafi verið auglýstar til leigu frá og með sumrinu 2025. Einkahlutafélagið Starir er með vatnasvæðið á leigu í dag en núgildandi leigusamningur rennur út í haust. Því óskar Veiðifélag Blöndu og Svartár eftir tilboðum í leigu eða umboðssölu á öllum veiðirétti félagsins í laxveiðiánum frá og með sumrinu 2025 til og með 2029 með almennu útboði.
Meira

Sr. Guðrún Karls Helgudóttir næsti biskup Íslands

Nú liggur það ljóst fyrir hver verður biskup Íslands eftir síðari umferð biskupskosninganna lauk á hádegi í dag 7. maí og hlaut Sr. Guðrún Karls Helgudóttir flest atkvæði 1060 eða 52,19%. Sr. Guðmundur Karl Brynjarsson fékk 954 atkvæði eða 46,97%.
Meira

Katrín heimsækir Norðurland vestra

Fyrstu kappræður þeirra tólf frambjóðenda sem stefna á Bessastaði fóru fram í Sjónvarpinu sl. föstudag og vöktu talsverða athygli og gott áhorf. Nú eru tæpar fjórar vikur til kjördags og því eru forsetaefnin komin á fulla ferð í eltingaleiknum um atkvæði kjósenda. Katrín Jakobsdóttir er mætt til leiks og er á ferð um landið en næstu tvo daga verður hún á Norðurlandi vestra; fundar á Blönduósi og Sauðárkróki miðvikudaginn 8. maí og á Hvammstanga degi síðar.
Meira