Loksins lágvöruverslun til Skagafjarðar? | Álfhildur Leifsdóttir skrifar
Á fundi skipulagsnefndar í liðinni viku lagði undirrituð sem fulltrúi VG og óháðra fram tillögu sem hvetja á lágvöruverslun til að rísa á Sauðárkróki. Tillagan var samþykkt með 2 atkvæðum þeirra VG og óháðra og Sjálfstæðisflokks. Fulltrúi Framsóknar greiddi ekki atkvæði með tillögunni.
Hjá skipulagsnefnd Skagafjarðar er unnið að gerð deiluskipulags sem kallast “athafnasvæði Sauðárkrókur AT-403” en eftirspurn eftir lóðum á athafnasvæðum hefur aukist til muna á Sauðárkróki síðustu árin og hefur framboð á lausum athafnalóðum minnkað samhliða. Sveitarfélagið hyggst bregðast við aukinni eftirspurn með því að skipuleggja lóðir á þessu svæði (sjá mynd).
Tillaga um ívilnun fyrir lágvöruverslun
Á umræddum fundi skipulagsnefndar lagði undirrituð til að sveitarstjórn nýti sér 8. grein úthlutunarreglna Skagafjarðar um vilyrði til að skipuleggja sérstaklega hentuga lóð fyrir lágvöruverslun. Jafnframt gekk tillagan út á að lóðin verði með ívilnunum þar sem felld verða niður eða veittur verulegur afsláttur af lóða- og gatnagerðagjöldum en fordæmi eru í sveitarfélaginu fyrir ívilnunum af slíku tagi. Í áðurnefndri 8.grein úthlutunarreglna um byggingarlóðir í Skagafirði segir m.a.: “Sveitarstjórn er í sérstökum tilvikum, ef málefnaleg rök eru til þess, heimilt að veita vilyrði fyrir lóðum/svæðum fyrir atvinnustarfsemi án auglýsingar, innan skipulagðra svæða eða á óskipulögðum svæðum”.
Rökstuningur með tillögunni
Rökstuðingur tillögunnar er eftirfarandi: “í ljósi þess að engin lágvöruverslun er starfandi á landsvæðinu frá Borgarnesi yfir til Akureyrar þá myndi lágvöruverslun hér þjóna talsvert stóru svæði, eða tæplega 7 þúsund íbúum. Sauðárkrókur er landfræðilega vel staðsettur fyrir fólk að sækja þjónustu af þessu tagi. Þá myndi það minnka kolefnisspor íbúa að hafa lágvöruverslun í nágrenninu þar sem mörg sækja slíka þjónustu yfir lengri veg, eins myndi það auka öryggi íbúa að þurfa ekki að fara lengri leið eftir slíkri þjónustu yfir vetrartímann. Að íbúar leiti annað til eftir þjónustu lágvöruverslunar leiðir til þess að önnur viðskipti og fjármagn flæðir úr samfélaginu. Með lágvöruverslun fá íbúar aðgang að fjölbreyttu úrvali af vörum á lægra verði sem getur aukið lífsgæði og sparað bæði tíma og fjármagn. Auk þess myndi slík verslun auka samkeppni á milli verslana á svæðinu sem oft leiðir til lækkunar á verðlagi. Margir myndu hafa ávinning af slíkri lágvöruverslun sem myndi laða að sér íbúa nágranna sveitarfélaga og þannig almennt auka við þjónustu annarra fyrirtækja á staðnum, því lágvöruverslanir stuðla að því að byggðarkjarnar verði sjálfbærari með því að bjóða upp á grunnþjónustu á staðnum. Auk þess skapa þær störf, koma í veg fyrir að fólk þurfi að leita annað eftir vörum og þjónustu og halda þannig fjármagni frekar í samfélaginu auk þess að laða að fleiri fyrirtæki. Allt þetta styrkir staðbundið atvinnulíf og efnahag. Þó íbúar Skagafjarðar hafi mælst hamingjusamastir allra landsmanna í íbúakönnun Vífils Karlssonar á þessu ári, þá kemur berlega fram í niðurstöðum könnunarinnar að vöruverð er sá þáttur sem kemur hvað verst út að mati íbúa Skagafjarðar. Hefur vöruverð að mati íbúa verið gegnumgangandi einn af neikvæðustu þáttum sveitarfélagsins í fyrri könnunum Vífils á þessu svæði, sem og í næstu sýslum til vesturs.
Deiliskipulag á að taka hliðsjón af þörfum samfélagsins til framtíðar og leitast við að laða að sér þá þjónustu og starfsemi sem samfélagið kallar eftir og gerir aðdráttarafl þess til búsetu enn meira. Í heildina stuðlar lágvöruverslun í byggðakjörnum að betri þjónustu fyrir íbúa, sterkari staðbundnum efnahag og aukinni sjálfbærni samfélagsins."
Íbúar hafa talað
Íbúar hafa komið skoðunum sínum um hátt vöruverð í héraðinu á framfæri í íbúakönnunum en hlutverk kjörinna fulltrúa er umfram annað að hlusta á íbúa og þjóna þörfum þeirra. Ekki dugar að bíða eftir að hlutirnir gerist að sjálfu sér, heldur þarf að sækjast eftir því sem samfélagið kallar eftir og greiða götuna með þeim hætti sem regluverkið leyfir. Nú er það í höndum sveitarstjórnar Skagafjarðar að ákveða hvort ívilnunum verði beitt til að laða að lágvöruverslun í héraðið. Næsti sveitarstjórnarfundur verður haldinn 23. október næstkomandi og verður áhugavert að sjá hvort tillögunni verði ekki fagnað þar og veitt framganga.
Álfhildur Leifsdóttir
oddviti Vinstri grænna í Skagafirði
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.