Ný hitaveituhola í Borgarmýrum
Á heimasíðu Skagafjarðar segir að borun nýrrar borholu (BM-14) í Borgarmýrum lauk þann 20. september sl. ÍSOR gerði prófanir á holunni samdægurs. Í ljós kom að um öfluga vinnsluholu er að ræða. Úr henni er sjálfrennsli upp á 20-30 sekúndulítra af 69°C heitu vatni. Slíkt magn nægir fyrir 500 meðal íbúðir/hús. Leiða má líkur að því að ef dælu væri komið fyrir í borholunni mætti ná 80-100 sekúndulítum af vatni. En dælingu þarf að skoða sérstaklega, m.t.t. annarra borhola á svæðinu, þar sem um sama jarðhitaforðabúr er að ræða.
Framkvæmdir hófust með byggingu borplans í byrjun júlí og lauk þeim verkhluta um þann mánuð miðjann. Víðimelsbræður ehf. sáu um verkið.
Samið var við Ræktunarsamband Flóa og Skeiða um borun nýrrar, 800m djúprar holu. Ekki þurfti að fara í fulla dýpt og endaði holan í 762 m. dýpt. Undirbúningur, fyrir borun, hófst á staðnum 9. ágúst og borun þann 20. þess mánaðar. Var borinn Nasi notaður við verkið. Borun gekk vel og komu engir ófyrirséðir hnökrar upp.
Í haust munu Skagafjarðarveitur ljúka við tengingu holunnar inn á hitaveitukerfi Sauðárkróks.
Heildarkostnaður við verkið er um 180 milljón krónur.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.