Um 50 manns sóttu íbúafund í Félagsheimilinu Hvammstanga
Á heimasíðu Húnaþings vestra segir að þann 17. september sl. var haldinn fjölsóttur íbúafundur í Félagsheimilinu Hvammstanga. Fundarefnið var uppbygging samfélagsmiðstöðvar í húsinu en verkefnið hefur verið í þróun um nokkurt skeið. Um 50 manns komu til fundarins og unnu í hópum að því að setja fram hugmyndir um hvað ætti að vera í húsinu, hvernig nýta ætti rými hússins, hvað samfélagsmiðstöðin ætti að heita o.s.frv.
Í samfélagsmiðstöðinni er áformað að verði aðstaða fyrir fjölbreytt félags- og tómstundastarf fyrir fólk á öllum aldri. Einnig er unnið að uppsetningu FabLab tæknismiðju í húsinu. Með samþættingu starfs fyrir ólíka hópa má ná fram bættri nýtingu á starfskröftum og húsnæði, bæta þjónustu, auka aðgengi að stuðningi og þjálfun og skapa dýnamískt umhverfi fyrir íbúa sveitarfélagsins. Grunnur að slíku starfi þarf að byggja á hugmyndum íbúa og því verður mikið lagt upp úr samráði í þeirri vinnu sem í hönd fer.
Fljótlega verður haldnir sambærilegir fundir með nemendum grunnskólans til að fá fram þeirra hugmyndir.
Eftir hugmyndafundina verður samantekt á niðurstöðum birt á heimasíðu sveitarfélagsins þar sem íbúum gefst tækifæri til að bæta við hugmyndum eða athugasemdum rafrænt.
Verkefnið um uppbyggingu samfélagsmiðsöðvarinnar hefur hlotið ýmsa styrki undanfarin misseri, Mennta- og barnamálaráðuneytið styrkti ráðningu tengslafulltrúa sem vinnur með ungu fólki í sveitarfélaginu og heldur utan um uppbyggingu miðstöðvarinnar ásamt sviðsstjóra fjölskyldusviðs. Styrkur fékkst úr Lóunni - nýsköpunarsjóði fyrir landsbyggðina til að skoða tækifæri í uppsetningu vottaðs eldhúss í húsinu. Einnig fékkst styrkur úr lið C1 á byggðaáætlun til kaupa á tækjum í FabLab tæknismiðju og að síðustu fékkst stuðningur við endurbætur á húsinu sjálfu frá hinu opinbera. Í verkefninu koma því saman áherslur úr ólíkum áttum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.