Vorkomumót Viðvíkursveitar
Á skírdag verður haldið að Narfastöðum í Skagafirði svokallað Vorkomumót Viðvíkursveitar þar sem bestu gæðingum héraðsins verður stefnt á keppnisbrautina. Keppt verður í tölti, þrígangi og símareið.
Töltið og þrígangurinn eru hefðbundnar greinar en símareiðin er að sögn keppnishaldara hið eiginlega slaktaumatölt þar sem keppendur leysa ýmsar skemmtilegar þrautir í hnakknum.
Um liðakeppnin er að ræða þar sem þrír eru í hverju liði og þær reglur gilda að kynjahlutföll mega einungis vera 33,33..% á móti 66,66..% með þeirri undantekningu þó að ef þrír karlmenn eru í sama liði skal a.m.k. einn keppa í kjól en ein kona í kjólfötum veljist þrjár saman í lið. A.m.k. 12 lið hafa boðað þátttöku á mótið en þau ein hafa keppnisrétt sem hafa lögheimili og varnarþing í Viðvíkursveitinni.
Að keppni lokinni verða verðlaunaveitingar og grillveisla og meðal vinninga er gisting á Fjalli í Kolbeinsdal, gelding (ekki skilgreint sérstaklega fyrir hvaða dýrategund), skaufaþvottur (sömu athugasemdir og síðast), girðingastaurar, kartöflur, járning og ýmislegt fleira.
Að sögn keppnishaldara verður þetta stórveisla fyrir augað þar sem bestu gæðingar héraðsins mæta enda allir meira og minna upprunnir úr Viðvíkursveitinni.
Keppnin hefst klukkan 16 að staðartíma og eru allir velkomnir.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.