Vísnakeppni Safnahúss Skagfirðinga

Nú er vor í lofti og víða farinn að sjást aur á afvegum. Einu sinni boðaði það byrjun Sæluviku og svo verður um ókomin ár. Nú sem fyrr leitum við til ykkar vísnasmiðir um land allt og förum þess á leit að þið botnið nokkra fyrriparta. Ég efast ekki um árangurinn.
Það er Safnahús Skagfirðinga sem sér um og drífur áfram þennan dagskrárlið Sæluviku sem mun verða fimmtugur á næsta ári. Reglur eru sem fyrr afar skýrar og einfaldar, í fyrsta lagi að botna fyrirfram gefna fyrriparta og í öðru lagi að semja vísu um tiltekið efni. Ekki er nauðsynlegt að botna alla fyrripartana og í góðu lagi að senda inn einungis eina vísu. Nauðsynlegt er þó að þátttakendur haldi sig við ferskeytluformið. Fyrripartarnir eru að þessu sinni eins og við öll, hver með sínu innihaldi,eftir fulltrúa tveggja kynslóða. Verður spennandi að sjá frá ykkur afraksturinn.
Léttur vetur liðinn hjá,
ljúfir dagar bíða.
Fari ég um fjallasvið
fjarri dagsins önnum.
Virðing þingsins vísast eykur
væl um föt og tapparaus.
Lóusöngur, lækjarhjal
lífsins gátu tóna
Orðin bjóða upp í dans
ætlar þú að hlýða
Margt er að gerast í henni Verslu eins og karlinn sagði en víst væri gaman að fá vísur frá ykkur um stöðuna í heimsmálunum þar sem Trump leikur á lyklaborð og tollskrár.
Veitt verða tvenn peningaverðlaun, annars vegar fyrir besta botninn og hins vegar fyrir bestu vísuna. Ítrekað er, að ekki er nauðsynlegt að allir fyrripartar séu botnaðir og leyfilegt er að senda eingöngu eina vísu.
Vísur og botnar verða að hafa borist Safnahúsi Skagfirðinga Faxatorgi 55, Sauðárkróki í síðasta lagi á miðnætti 16. apríl n.k. Nauðsynlegt er að vísurnar séu merktar dulnefni, en rétt nafn og símanúmer fylgi með í lokuðu umslagi merktu dulnefninu. Einnig er hægt að senda vísur og botna á netfangið bokasafn@skagafjordur.is verður þá viðkomandi gefið dulnefni, ef það fylgir ekki með, áður en vísurnar fara til dómnefndar. Úrslit verða tilkynnt við setningu Sæluviku Skagfirðinga, Safnahúsinu á Sauðárkróki sunnudaginn 27. apríl kl. 13:00.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.