Langþráður nýr björgunarbátur í Skagafjörðinn

Sl. laugardag afhenti FISK Seafood Björgunarsveitinni Skagfirðingasveit nýjan björgunarbát að gjöf. Andvirði bátsins, sem hlotið hefur nafnið Aldan, er um 20 milljónir króna og boðar koma hans á Sauðárkrók byltingu í búnaði til sjóbjörgunar og sömuleiðis björgunarstörf á hinum mikilfenglegu en um leið viðsjárverðu vötnum héraðsins. Með tilkomu Öldunnar eru tveir öflugir harðbotna björgunarbátar beggja vegna í Skagafirðinum. Aldan er í vestri en að austanverðu er Skafti í eigu björgunarsveitarinnar Grettis.
Segja má að Aldan hafi ekki komist alla leið í höfn fyrr en í annarri tilraun. Eins og sagt var frá í fjölmiðlum fyrir nokkrum misserum náði Skagfirðingasveit að öngla saman fyrir nýjum björgunarbáti með gríðarlega umfangsmiklu fjáröflunarstarfi. Með óvönduðum viðskiptaháttum í gegnum pöntunarferli bátsins var stórum hluta andvirðis hans stolið og eftir sat björgunarsveitin slypp og snauð. Traustur bakhjarl okkar, FISK Seafood á Sauðárkróki, sem styrkt hafði þessi endasleppu bátakaup af miklum rausnarskap, gekk þá fram fyrir skjöldu og lýsti því yfir að fyrirtækið myndi fjármagna nýjan björgunarbát að fullu. Þungu fargi var í einu vetfangi létt af stjórn sveitarinnar og fyrir það dýrmæta framlag viljum við þakka af miklum innileika.
Aldan var afhent okkur með formlegum hætti sl. laugardag að fjölmenni viðstöddu. Í ávarpi við það tækifæri gerði Friðbjörn Ásbjörnsson, framkvæmdastjóri FISK Seafood, mikilvægi björgunarsveitanna á Íslandi að umtalsefni og sagði m.a. „ ... að væntanlega státaði engin þjóð í heimi af stærri og öflugri björgunarsveitum sjálfboðaliða en einmitt Íslendingar. Það eru alls um 5.500 manns í 93 björgunarsveitum um land allt. Fjöldi þessara sjálfboðaliða sem svara neyðarkallinu á augabragði hvenær sem það berst er þannig talsvert meiri en sem nemur íbúafjöldanum í öllum Skagafirði. Útköllin þeirra eru u.þ.b. 1.500 á ári og þar af eru um tíu prósent, 150 útköll, vegna sjóbjörgunar. Og þá getur nærvera báta eins og Öldunnar skipt öllu máli.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.