Vilja leikskólabyggingu á ís

Páll Dagbjartsson, fulltrúi sjálfstæðismanna í Byggðaráði Skagafjarðar, segist vilja sjá byggingu leikskóla við Árkíl setta á ís þangað til í það minnsta í haust og hætta um leið við allar lántökur vegna byggingarinnar.
Á fundi byggðarráðs nýverið veitti ráðið sveitarstjóra heimild til að ganga frá lántöku hjá Lánasjóði sveitarfélaga. Sveitarstjóri og fjármálastjóri hafa verið að kanna hvort sveitarfélaginu bjóðist mögulega hagstæðari lánskjör annars staðar á láni af þessari stærðargráðu. Var lauslega frá því greint þegar heimildin var veitt. Virðist nú sem sveitarfélaginu bjóðist möguleg lánskjör sem eru hagstæðari en það sem Lánasjóðurinn getur boðið. Því hefur byggðaráð ákveðið að  veita sveitarstjóra heimild til semja um lántöku við annan aðila en Lánasjóð sveitarfélaga um allt að 150 millj. króna, sé það mat hans, að höfðu samráði við endurskoðanda, að boðin séu hagstæðari lánskjör.
Ítrekaði Páll á fundinum fyrri bókanir fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem telja sveitarfélagið ekki ráða við auknar lántökur við óbreyttar aðstæður. Í bókun Gísla Árnasonar frá því fyrr í mánuðinum kemur fram að Gísli meti skýrslu endurskoða á þann veg að uppi séu hættumerki og því ætti sveitarfélagið ekki að fara út í frekari lántökur að svo komnu máli.
-Við erum á þannig tímum núna að gengi krónu og vaxtastig er vægast sagt bágborið. Við teljum alla möguleika til þess að ástandið eigi eftir að batna á lánamörkuðum á næstu misserum og teljum því skynsamlegra að bíða með framkvæmdina, segir Páll í samtali við Feyki.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir