Vefur um náttúru Skagafjarðar
Námsvefurinn Náttúra Skagafjarðar var opnaður formlega við hátíðlega athöfn í Háskólanum á Hólum á degi íslenskrar tungu. Það er Háskólinn á Hólum
sem gefur vefinn út en höfundur hans er Sólrún Harðardóttir, kennari og námsefnishöfundur, og kynnti hún vefinn við athöfnina sem Erla Björk Örnólfsdóttir, rektor, stýrði.
Í kynningu um vefinn segir að hann sé fræðsluefni fyrir stálpaða krakka, unglinga og áhugasaman almenning. Hann er umfangsmikill og fjallar um jarðfræðileg fyrirbæri, landslag, byggðalög, örnefni, áhugaverða staði, lífríkið, umgengni mannsins, sjálfbærni, veður og auk þess er þar að finna nokkur ljóð og málverk. Einnig er á vefnum fjöldi skapandi verkefna.
Vefurinn hefur m.a. það að markmiði að lesendur öðlist heildarmynd af náttúru Skagafjarðar, læri að þekkja séreinkenni náttúrunnar í Skagafirði og kynnist nokkrum náttúruperlum svæðisins. Einnig er lögð áhersla á virðingu fyrir náttúrunni og að lesendur finni til ábyrgðar gagnvart því umhverfi sem næst þeim er.
„Dagur ísl. tungu hefur yfir sér ákveðinn ljóma í mínum huga og ég er því sérstaklega ánægð með að senda afkvæmi mitt frá mér á einmitt þessum degi. Afkvæmið, vefur um náttúru Skagafjarðar, hefur fengið að nærast og þroskast á tvennu, tilfinningu fyrir íslenskri tungu, væntumþykju á fólki, í þessu tilfelli Skagfirðingum, ungum og eldri, en síðast en ekki síst á ást, ást á hinni undursamlegu náttúru sem við erum jú hluti af,“ sagði Sólrún m.a. í kynningarávarpi sínu.
Vefurinn verður án nokkurs vafa kærkomin viðbót við efni til grenndarkennslu í skólum Skagafjarðar en almenningur mun einnig hafa gagn og gaman af að kynna sér margs kyns fróðleik sem þar er að finna.
Sáttmálasjóður, Sáttmáli til sóknar í skólamálum í Skagafirði, styrkti gerð vefsins.
Slóðin að vefnum er náttúraskagafjarðar.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.