Karlafitt 550 sigraði Jólamót Molduxa

Sigurvegarar mótsins, Karlafitt 550.
Sigurvegarar mótsins, Karlafitt 550.

Jólamót Molduxa í körfubolta fór fram í gær, annan dag jóla, í íþróttahúsinu á Sauðárkróki. Samkvæmt venju var mótið vel sótt, bæði af hálfu keppenda og ekki síður áhorfenda en að þessu sinni tóku 10 lið þátt. Keppt var í tveimur riðlum, á tveimur völlum, frá kl. 11-16, en þá hófst úrslitaleikur efstu liða hvors riðils. Það var Karlafitt 550, sem stóð uppi sem sigurvegari mótsins og Una Aldís Sigurðardóttir hlaut þann heiður að fá Samfélagsviðurkenningu Molduxa þetta árið. 

Þetta mun vera í 31. sinn sem Jólamót Molduxa fer fram, en þá reyna með sér áhugasamir körfuboltaunnendur og hafa gleði og gaman að leiðarljósi með mismikilli hörku og ruddaskap í kaupbæti. Eftir æsispennandi riðlakeppni enduðu Karlafitt 550, með KR-inginn Rúnar Rúnarsson í liðsstjórasætinu og Stíga út og Berjast, sem Pálmi Þórsson, Svaðastaðakappi skráði til keppni, í úrslitaleik. Eins og við mátti búast bauð leikurinn upp á mögnuð tilþrif enda gamlir jálkar úr Tindastól í hvoru liði og aðrir sem vissulega hefðu átt að vera þar á einhverjum tímapunkti. Endaði leikurinn með sigri Karlafitt 550, 23 stig gegn 20.

Um dómgæslu sáu meistaraflokkar Tindastóls og ritaraborðin voru í höndum Barna- og unglinganefndar Tindastóls en allur ágóði mótsins rennur til þeirra.

Hér fyrir neðan má lesa setningarræðu mótsstjóra:

Góðir gestir ... velkomin í Síkið!

Samkvæmt venju hefjum við okkar árlega jólamót á því að upplýsa hver hefur hlotið hin eftirsóttu Samfélagsviðurkenningu Molduxa en þau hafa verið veitt frá árinu 2015 þegar Skúli Jónsson fyrstur manna tók við þeim. Árið eftir fékk þau Rannveig Helgadóttir, Kári Marísson 2017, Hrafnhildur Pétursdóttir 2018 og árið 2019 kom hún í hlut Árna Stefánssonar.

Vegna Covid- árin 2019 og 2020 voru ekki haldin jólamót. En 2021 féll viðurkenningin í skaut Björns Hansen og í fyrra til Karls Lúðvíkssonar.

Nú er hins vegar komið að nýju kjöri en sú sem hlýtur viðurkenninguna á ár er körfuboltafólki að góðu kunn. Hún hefur verið óþreytandi við að leggja hönd á plóg þegar þess er þörf í hvaða íþróttastarfi sem er.

Ég vil biðja Unu Aldísi Sigurðardóttur að koma hingað upp til okkar.

Una Aldís Sigurðardóttir er ættuð úr Lýdó og Svartárdal í Húnavatnssýslu, dóttir Sigurðar Pálssonar frá Starrastöðum og Sigurbjargar R. Stefánsdóttur frá Steiná í Svartárdal. Una ólst upp í Kópavogi, en var í Svartárdal öll sumur.

Una hefur spilað blak frá 10 ára aldri með HK og vann nokkra Íslandsmeistaratitla með sínu liði upp alla aldursflokka. Spilaði nokkra landsleiki með unglingalandsliði í blaki áður en hún flutti á Sauðárkrók árið 1990. Hér datt hún strax í hið frábæra lið Krækjur á Sauðárkróki og hefur spilað með þeim blak síðan þá og er enn að.

Una þjálfaði Krækjur í nokkur ár en í dag kallast hún stjórnandi þar.

Undanfarin ár hafa Krækjur tekið þátt í Íslandsmóti og fjölmörgum hraðmótum og gengið bara nokkuð vel að sögn Unu.

Hún er gift Stefáni Guðmundssyni og eiga þau þrjá stráka sem allir stunduðu íþróttir þegar þeir voru að alast upp og fylgdu þau þeim eftir en allir æfðu þeir fótbolta, körfu og eitthvað voru tveir í frjálsum. Una segir að með íþróttaiðkun drengjanna fylgdi alltaf sjálfboðaliðsstörf sem hún tók þátt í; vinna á mótum, keyra á mót og safna fyrir utanlandsferðum.

Una var í stjórn körfuboltadeildar Tindastóls í nokkur ár en undanfarin ár hefur hún aðstoðað í sjoppunni á leikjum í körfuboltanum bæði kvenna- og karla og hefur gaman af, ásamt ýmsum fjáröflunarverkefnum eins og að vinna á böllum o.fl.

Þá hefur hún tekið þátt í sjálfboðaliðsvinnu á bæði unglingalandsmótum og landsmótum í hinum ýmsu greinum eins og körfu, frjálsum, fótbolta og handbolta en á síðasta unglingalandsmóti hélt hún utan um grasblakið.

Hún segir gaman og gefandi að vinna sjálfboðaliðastörf þar sem hún hittir margt skemmtilegt fólk sem leggur sitt af mörkum svo börn og fullorðnir geti stundað íþróttir því að það gefi fólkinu og bæjarfélaginu okkar svo mikið.

Kæru gestir gefið Unu gott klapp.

Þar með segi ég 31. Jólamót Molduxa sett!

/Fréttatilkynning

 

Una Aldís Sigurðardóttir tekur við Samfélagsviðurkenningu Molduxa 2024.

Aldur er afstæður í boltanum. Þrír ættliðir í Molduxum, Helgi Freyr, Margeir og Hallur Atli.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir