Hlaðin gulli eftir MÍ 30+ um helgina
Um helgina fór fram Meistaramót Íslands 30 ára og eldri á Sauðárkróksvelli. Veitt voru verðlaun fyrir besta árangurinn samkvæmt WMA prósentu og voru það Anna Sofia Rappich (UFA) og Ágúst Bergur Kárason (UFA) sem voru með hæstu prósentuna í kvenna- og karlaflokki.
Anna Sofia hljóp 100 metra hlaup í flokki 55-59 ára á tímanum 15,20 sem eru 86,58 prósent. Ágúst Bergur hljóp 200m í flokki 45-49 ára á 25,84 sek. sem eru 86,11 prósent.
Að sögn Thelmu Knútsdóttur, framkvæmdastjóra UMSS, átti sambandið þrjá keppendur sem unnu 35 Íslandsmeistaratitla í sínum aldurshópum.
Karl Lúðvíksson keppti í aldursflokki 70-74 ára, Linda Björk Valbjörnsdóttir keppti í aldursflokki 30-34 ára og Vignir Gunnarsson keppti einnig í aldursflokki 30-34 ára.
Karl varð sjöfaldur Íslandsmeistari og gerði persónulega bætingu í kringlukasti, Linda varð Íslandsmeistari í tólf greinum og Vignir keppti í öllum greinum sem voru í boði í hans aldurshópi og kláraði þær allar og uppskar 16 gull og Íslandsmeistaratitla.
Tveir keppendur, Sigríður S. Þorleifsdóttir, USAH og Sigurbjörg Jóhannesdóttir, USVH, settu aldursflokkamet í sínum flokknum hvor, Sigríður í hástökki og Sigurbjörg í lóðkasti.
Eflaust má telja að vinningarnir hafi verið auðsóttir þar sem fámennt var í hverri grein og flestir kepptu við sjálfan sig.
Aldursflokkamet
75-79 ára – Vöggur Clausen Magnússon (ÍR) 400m (87,09 sek) 800m (3:54,16) 1500m (7:34,44) 3000m (16:01,21)
55-59 ára – Anna Sofia Rappich (UFA) Langstökk (4,20m)
55-59 ára – Sigríður S. Þorleifsdóttir (USAH) Hástökk (1,10m)
50-54 ára – Sigurbjörg Jóhannesdóttir (USVH) Lóðkast 7,26 kg (8,99m)
Heildarúrslit mótsins má finna hér.
Myndir frá mótinu má finna hér.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.