Fjórir ungir og efnilegir semja við Kormák Hvöt

Aðdáendasíða Kormáks hefur haft í nógu að snúast undarnfarnar vikur í að tilkynna hvaða ungu og efnilegu leikmenn eru búnir að skrifa undir hjá félaginu fyrir komandi átök í sumar. Fyrsti leikur verður spilaður á útivelli í byrjun maí eða þann 3. maí við KFA en fyrsti heimaleikurinn verður þann 10. maí á móti Gróttu á Blönduósvelli.

Fyrst ber að nefna kantmanninn Jón Gísla Stefánsson en hann er að hefja sitt sjöunda tímabil með meistaraflokki þrátt fyrir ungan aldur. Þá er það Haukur Ingi Ólafsson en hann er sautján ára sóknarmaður sem sýndi góða takta í þeim sex leikjum sem hann spilaði fyrir Kormák Hvöt í fyrra. Sigurjón Bjarni Guðmundsson er einnig nýbúinn að skrifa undir aðeins 16 ára gamall og hefur núþegar spilað tvo leiki og staðið sig einstaklega vel. Síðastur í þessari upptalningu er svo Stefán Freyr Jónsson en þessi efnilegi varnarmaður hefur, þrátt fyrir ungan aldur, komið við sögu í 13 leikjum með Kormáki Hvöt.

Nánar um alla leikmennina má lesa hér:

Jón Gísli Stefánsson sýndi virkilega góða takta í sumar, þrátt fyrir að hafa glímt við þrálát meiðsli, og varð fimmti markahæsti leikmaður liðsins. Það er því tilhlökkunarefni að sjá hann halda áfram með heimaliðinu og byggja á góðum grunni síðustu ára. Þessi tvítugi leikmaður hefur leikið 72 KSÍ leiki á ferlinum og er sá útileikmaður í sögu Kormáks Hvatar sem hefur leiki flesta deildarleiki án þess að fá spjald - áfram Jón Gísli og áfram ungir heimamenn!

Haukur Ingi Ólafsson hefur sýnt miklar framfarirnar á milli ára og verður gaman að fylgjast með hvað hann gerir í framhaldinu í bleika búningnum góða. Þess má geta að Haukur skoraði 9 mörk í 7 leikjum með 2. flokki í sumar og var þar með markahæsti leikmaður síns riðils. Framtíðin er björt, nú er bara að taka hana hornum tveim!

Sigurjón Bjarni Guðmundsson er einn af efnilegustu leikmönnum liðsins sem hefur verið hluti af æfingahópi undanfarin sumur. Þrátt fyrir að vera rétt orðinn 16 ára hefur hann þegar komið við sögu í tveimur meistaraflokksleikjum, einum í fyrra og einum í ár. Það þýðir að hann á aðeins átta leiki í að ná karli föður sínum í leikjafjölda fyrir Kormák Hvöt.

Stefán Freyr Jónsson lék á liðnu sumri rjá leiki í hinni sterku 2. deild, auk þess að hafa verið í leikmannahópnum 14 sinnum til viðbótar. Það er lýðnum ljóst að Stefán er staðfastur hluti af leikmannahópi Kormáks Hvatar og spennandi verður að fylgjast með næstu skrefum þessa stæðilega gleðigjafa úr sterkum 2006 árgangi Kormáks Hvatar næstu árin!

Hér má sjá leikjaplan sumarsins hjá Kormáki Hvöt

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir