Töfratónar Ævintýrakistunnar á 17. júní
Sett verður upp söng- og leiksýning í Íþróttahúsinu á Sauðárkróki þann 17. júní næstkomandi. Sýningin, sem nefnist Töfratónar Ævintýrakistunnar, byggist á tónlist úr teiknimyndum, leikritum og söngleikjum og eru öll lögin sungin á íslensku. Höfundur leikverksins er Sólveg B Fjólmundsdóttir.
Aðalpersóna sýningarinnar er prakkarinn og tónlistarálfurinn Lykill. Hann býr í skógi í Álfheimum og á gríðarstóra kistu sem hann safnar í tónlist frá vinum sínum úr Ævintýraheimunum. Lykill leyfir áhorfendum að skoða gullin sín og upp úr kistunni kemur töfrandi tónlist og litríkar sögupersónur, margar hverjar vel þekktar börnum á öllum aldri. Lykill er mikill orkubolti og grallari og á að til að vera mömmu sinni rúmlega handfylli. Nú er hann einmitt kominn í felur fyrir henni sökum prakkarastrika og þorir ekki heim. Mamma Lykils leitar hans nú logandi ljósi og óttast að eitthvað slæmt hafi hent hann í skóginum þar sem allskonar verur eru á sveimi og ýmislegt getur gerst.
Nánar verður fjallað um verkið í Feyki í næstu viku.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.