Tindastóll tapaði fyrir Reyni

Það gengur ekki alveg nógu vel hjá okkur mönnum í Tindastól þessa dagana. Spurning um að fjölmenna öll sem eitt á næsta leik og gefa þeim þann kraft sem þarf til að snúa stöðunni sér í vil

Tindastóll tapaði með þremur mörkum gegn einu fyrir Reyni, Sandgerði en leikið var á nýjum leikvangi Reynismanna í dag.  Tindastóll er komið í alvarlega stöðu, en eftir 7 leiki er liðið einungis með 5 stig.

Byrjunarlið Tindastóls: Gísli, Alli, Stefán Arnar, Bjarki Már, Pálmi Þór, Loftur, Sævar, Árni Arnars, Konni, Ingvi Hrannar og Fannar Freyr.
Eftirfarandir leiklýsing er tekin af heimasíðu Tindastóls; -
Tindastólsliðið byrjaði betur í leiknum og má segja að liðið hafi verið betri aðilinn í fyrri hálfleik.  Okkar menn börðust ágætlega unnu návígi og uppskáru mark fljótlega í leiknum þegar Konni skoraði mark fyrir okkar menn.  Það var svo ákveðinn vendipunktur í leiknum þegar dómari leiksins gaf Reynismönnum vítaspyrnu, líkast til vegna þess að það var verið að vígja nýjan völl þeirra heimamanna.  Fáranlegur dómur sem gaf Reynismönnum færi á að komast inn í leikinn og það gerðu þeir með því að skora úr þessari vítaspyrnu og jafna leikinn í 1-1.

Í seinni hálfleik hélt baráttan áfram en okkar menn sofnuðu á verðinum á lokamínútum leiksins eins og gerst hefur áður.  Á lokamínútu leiksins skora Reynismenn og komast yfir og bæta síðan við marki í uppbótartíma.  Úrslitin 3-1 og Tindastólsmenn áfram með aðeins 5 stig.  Það er ekki neitt að falla með liðinu á þessu móti en 1/3 er nú búinn af því.  Leikmannahópurinn verður að standa saman, allir sem einn, framundan er líkast til fallbarátta ef fram heldur sem horfir.  Það vita allir að Tindastólsliðið á ekki að vera í þessari stöðu og því þurfa allir að leggjast á eitt og rífa sig upp.  Leikmenn verða að vera tilbúnir í alla leiki og klára þá þar til dómarinn flautar til leiksloka. 

Vissulega grátlegt að tapa svona á lokamínútunum og sérstaklega þar sem þetta er ekki að gerast í fyrsta skiptið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir