Tindastóll tapaði fyrir austan 2-0
Tindastólsmenn fóru austur á Egilsstaði í gærkvöld og léku við Hött í 2.deildinni. Leikurinn var jafn og gat sigurinn lent hvoru megin sem var. Hattarmenn sigruðu þó í leiknum með tveimur mörkum gegn engu.
Leikurinn fór rólega af stað en bæði lið áttu þó sín færi. Gísli varði þó einu sinni mjög vel eftir ágæta tilraun Hattarmanna. Tindastóll skoraði hinsvegar úr hornspyrnu en dómari leiksins dæmdi brot á leikmann okkar. Staðan í hálfleik því 0-0
Upp úr miðjum hálfleiknum var brotið á Ingva Hrannari og dæmd vítaspyrna sem Kristmar Geir tók. Markvörður Hattar varði spyrnuna en missti boltann aftur til Kristmars sem fékk annan ekki síðri sjens að skora en brást aftur bogalistin.
Þetta virkaði eins og vítamínsprauta á Hattarmenn sem efldust við þetta og skoruðu mark í kjölfarið. Tindastólsmenn sóttu og sóttu og voru flestir komnir í sóknina en á 93. mínútu skoruðu Hattarmennn annað mark sitt og þar við sat.
Nú verða Tindastólsmenn að taka sig á. Úrslitin í þremur síðustu leikjunum hafa ekki verið góð, jafntefli í Hveragerði, tap fyrir Njarðvík og tap á Egilsstöðum. Í tveimur leikjum höfum við gefið mótherjanum mark á silfurfati, mark sem hefur skipt sköpum í leikjunum. Í kvöld klikkum við á vítaspyrnu, sem sjálfsagt hefði breytt gangi leiksins, fáum síðan mark í andlitið.
Næsti leikur liðsins verður á laugardaginn á móti liði BÍ/Bolungarvík.
/Tindastóll.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.