Þúsundasti stúdentinn brautskráður
Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra var slitið við hátíðlega athöfn í íþróttahúsinu á Sauðárkróki laugardaginn 23. maí að viðstöddu fjölmenni. Alls brautskráðust 100 nemendur.
Við upphaf athafnarinnar flutti Jón F. Hjartarson skólameistari vetrarannál. Í máli skólameistara kom fram að nemendur skólans hafa aldrei verið fleiri, en alls sóttu nám við skólann i vetur samtals 623 nemendur þegar allir eru meðtaldir. Í haust hófu nám 485 nemendur en nú á vorönn alls 548 nemendur og voru þar af 138 sem ekki voru á haustönn en 75 þeirra sem stunduðu nám á haustönn ýmist luku námi um áramót að frestuðu námi sínu. Með öðrum orðum má segja sama hlut, að í vetur hafi að meðaltali 516,5 nemendur stundað nám báðar annir. Námsframboð skólans var meira en árið áður þar sem boðið var upp á vélavarðar (vélstjórnarnám 1. stigs) nám fyrir fólk eftir vinnutíma á kvöldin og sóttu það 21 nemandi en jafnframt var hliðstætt nám í dagskólanum. Þá sóttu 15 fullorðnir (20 ára og eldri) helgarnám í húsasmíði með vinnu. Rekstur skólans var hallalaus um síðustu áramót og ákveðið var að hækka ekki skólagjöld, heimavistargjöld eða mötuneytisgjöld fyrir vorönn 2009 til að veita andspyrnu gegn verðbólgunni og efla hag heimilanna á þann hátt. Þá kom fram í máli skólameistara að til stendur að bjóða út byggingu nýrrar 579 fermetra viðbyggingar við verknámshúsið og frágang lóðar og stendur til að opna tilboð í fyrri hluta júní. Um er að ræða þarfa og löngu tímabæra framkvæmd og er sérstakt ánægjuefni að þessi framkvæmd verður ekki skorin niður á tímum niðurskurðar og aukins aðhalds.
Að annál loknum flutti Jón Þorsteinn Reynisson Pílagrímakórinn eftir Richard Wagner úr óperunni Tannhäuser.
Því næst brautskráði skólameistari nemendur og veitti viðurkenningar. Þúsundasti stúdent skólans var brautskráður að þessu sinni og kom það í hlut Arons Stefáns Ólafssonar. Skólameistari færði honum 1000 krónur (sem tákn um það aðhald sem skólinn býr við um þessar mundir) og blómvönd. Nú hafa 1038 stúdentar brautskráðst frá skólanum, 274 iðnarmenn, 68, iðnmeistarar, 168 af vélstjórnarbraut 1. og 2 stigs, 80 með 30 rúmlesta skipstjórnarréttindi, 31 af starfsbraut skólans, 71 sjúkraliði og loks 137 af öðrum námsbrautum. Samtals hafa því 1867 nemendur brautskráðst frá skólanum.
Að lokinni brautskráningu fluttu Ragnheiður Silja Jónsdóttir og Helgi Sæmundur Guðmundsson lagið Söknuð eftir Jóhann Helgason.
Friðrik Laxdal Kárason flutti ávarp nýstúdenta, Auður Lilja Erlingsdóttir flutti ávarp 10 ára stúdenta, Kristín Sigurrós Einarsdóttir flutti ávarp 15 ára stúdenta, Árni Þór Þorbjörnsson flutti ávarp 20 ára stúdenta og Magnús Jónasson flutti ávarp 25 ára stúdenta.
Í kveðjuorðum skólameistari sagði hann meðal annars;
Viðfangsefni okkar sem er að endurreisa samfélagið, byggja að nýju það sem hrunið hefur og ekki hefur dugað- en með reynsluna að leiðarljósi. Það er nefnilega furðulegt og sjálfgefið í senn að grundvöllur fullkomleikans er ófullkomleikinn sjálfur. Mestu skiptir að þið reisið tilveru ykkar og framgöngu alla á heiðarleika og trúmennsku og að þið hafið til að bera seiglu og þrautseigju, bjartsýni og áræðni. Séuð nægjusöm og laus við fordild og hégóma og ræktið með ykkur samstarfsvilja og góðvild.
Að loknum kveðjuorðum skólameistara var skólanum slitið.
Að þessu sinni brautskráðust 100 nemendur, þar af 41 nemandi af stúdentsprófsbrautum, 12 iðnmeistarar, 13 húsasmiðir, 33 af vélstjórnarbraut 1. stigs og 1 með 30 rúmlesta skipstjórnarréttindi.
Við brautskráninguna fengu eftirtaldir nemendur viðurkenningar:
Aron Stefán Ólafsson fékk viðurkenningu fyrir framúrskarandi alhliða námsárangur á stúdentsprófi náttúrufræðibrautar og viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur í þýsku á stúdentsprófi.
Daníel Trausti Róbertsson fékk viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur í íslensku á stúdentsprófi og viðurkenningu frá Þýska sendiráðinu fyrir framúrskarandi námsárangur í þýsku á stúdentsprófi.
Elina Inkeri Pihlajamaeki skiptinemi fékk viðurkenningu frá starfsfólki skólans fyrir ánægjulega viðkynningu.
Fríða Rún Guðjónsdóttir fékk viðurkenningu frá Þýska sendiráðinu fyrir framúrskarandi námsárangur í þýsku á stúdentsprófi og viðurkenningu fyrir framúrskarandi ástundun í námi til stúdentsprófs.
Guðbjörg Ósk Daníelsdóttir fékk viðurkenningu frá Danska sendiráðinu fyrir framúrskarandi námsárangur í dönsku á stúdentsprófi.
Helgi Hrannar Traustason fékk viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur í meistaranámi
húsasmiða.
Óskar Bjarki Helgason fékk viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur í sérgreinum náttúrufræðibrautar á stúdentsprófi, viðurkenningu frá Efnafræðifélagi Íslands fyrir framúrskarandi námsárangur í efnafræði á stúdentsprófi og viðurkenningu frá Íslenska stærðfræðifélaginu fyrir framúrskarandi námsárangur í stærðfræði á stúdentsprófi.
Ragnar Páll Árdal fékk viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur í ensku á stúdentsprófi og viðurkenningu frá Íslenska stærðfræðifélaginu fyrir framúrskarandi námsárangur í stærðfræði á stúdentsprófi.
Sigurður Hafsteinn Ingvarsson fékk viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur á vélstjórnarbraut 1. stigs.
Sunna Gylfadóttir fékk viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur í ensku á stúdentsprófi og viðurkenningu frá Sendiráði Kanada fyrir framúrskarandi námsárangur í ensku og frönsku á stúdentsprófi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.