Þuríður í Delhí - Fer víst ekki heim í dag
Hafi ég sagt það áður þá segi ég það enn, ég ræð litlu og stundum engu í eigin lífi. Við vorum komin á flugvöllin, sérlegur aðstoðarmaður minn sá til þess að ég og föruneyti fengum allstaðar VIP aðgang, vorum allstaðar tekin fram fyrir sem var ósköp þægilegt, svo biðum við þess að geta farið út í vélina, en ég átti að vera redý við gate nr. 7 þar sem ég færi fyrst af öllum út í vél eða ca klukkustund fyrir brottför.
Kl. korter í 3 vorum við farin að ókyrrast og kl. hálffjögur var okkur tilkynnt um bilun í vélinni kl. 4 var öllum smalað til baka, gert að hirða farangurinn og okkur tilkynnt að við færum ekkert með þessu flugfélagi næstu 24 stundirnar.
Kl. 6 var okkur keyrt á Grand hotel, við vorum verulega þreytt og pirruð yfir þessu og ég verð að játa að ég hlakkaði ekki til að hrúgast inn í eitthvert sjabbý hótelherbergi með lélegu rúmi. Farið var að birta og ég sá út um bílgluggan hvar fólk var komið á stjá, verkafólk á leið í vinnu, konur í litríkum saríum með byrðar á höfðinu gengu til vinnu sinnar og lítil börn sátu brókarlaus á gangstéttinni og léku sér. Fátækrahverfið liðaðist óendanlegt fram hjá, mér varð hreint ekki um sel, í hvaða slum greni erum við eiginlega að fara. Loksins breyttist myndin, hrörlegar húsbyggingar með brotnum rúðum, þaktar skítugum og tættum auglýsingaskiltum véku fyrir hálfgerðri auðn, við vorum keyrð einhverja krókaleið og allt í einu blasti það við þetta stórglæsilega hótel hér mitt upp úr auðninni og ruslahaugunum allt í kring. Flott var það og allt marmaraklætt innan og utan, stærðin og glæsileikin nær yfirþyrmandi enda 500 herbergja hótel og móttakan plús veitingarými splúnkunýtt. Ég fékk eiginlega sömu tilfinninguna og í dýra mollinu, fannst þetta einhvernvegin of fínt fyrir mig, smáborgara úr þorpi fyrir norðan. En guð hvað ég naut þess að komast í rúmið í þessu fína herbergi sem var meira að segja útbúið fyrir hjólastólafólk og ég steinsvaf til klukkan að verða 2 í dag. Við fórum niður í hádegisverð og eiginlega var verst að þurfa að velja því svo margt var í boði, kokkar og þjónar stjönuðu við okkur þar til við gátum ekki meir og í orðsins fyllstu merkingu þá rúllaði ég út í garð eftir máltíðina. Garðurinn er stór, vel skipulagður og fallegur og hér er meira að segja þessi flotta sundlaug og sólbekkir. Ég verð að viðurkenna að þó mér leiddist hrikalega að komast ekki í flugið þá bætti hótelið það sannarlega upp og ég fékk enn nýja sýn á Delhí, svona staður var ég hreint viss um að finndist ekki hér, en mér skjátlaðist heldur betur. Nú bíðum við enn eftir einhverjum fréttum af Brithis Airway, hvort þeir standi við það að fljúga í nótt. Alla vega ég fer héðan reynslunni ríkari, þetta er í fyrsta skipti sem ég verð strandaglópur í flugi og í fyrsta skipti sem ég gisti svona glæsilegt hótel og það hér í Delhí.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.