Þrjú prósent treysta þeim
Það eru bara 2,7 prósent Íslendinga sem treysta ríkisstjórninni að öllu leyti til þess að gæta hagsmuna þjóðarinnar í umsóknarferlinu um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þetta er niðurstaða skoðanakönnunar Capacents, sem unnin var fyrir Bændasamtökin. Þessi niðurstaða getur ekki verið neitt minna en hreint áfall fyrir stjórnvöld, sem nú eru lögð af stað í mikinn leiðangur á fund ESB með samningsumboð frá flokkum sínum. Þetta er í rauninni vantraustsyfirlýsing á hendur ríkisstjórninni og megn vantrú á að hagsmuna þjóðarinnar verði gætt í samskiptum við erlend stjórnvöld.
Til þess að allrar sanngirni sé gætt, þá skal tekið fram að 8,5% treysta stjórninni síðan mjög vel í þessum efnum, en 15,6% frekar vel. Sem sagt einvörðungu um fjórðungur lýsir yfirhöfuð nokkru trausti á ríkisstjórnina þegar spurt er hvort hún muni gæta þjóðarhags í þessum samningum. Jafnvel þó þessar tölur séu taldar ríkisstjórninni að fullu til tekna, þá er niðurstaðan afgerandi. Það ríkir algjör vantrú hjá almenningi á að ríkisstjórnin gæti þjóðarhags í mikilvægum samningum, þar sem vélað er um þýðingarmestu hagsmuni okkar.
Það er í rauninni merkilegt hve þessar fréttir úr skoðanakönnun Capacents hafa litla athygli vakið. Könnunin er gerð þegar þjóðin er mjög vel meðvituð um hina hraklegu frammistöðu stjórnvalda í Icesavemálinu. Niðurstöðu könnunarinnar verðum við því að skoða sem einn risastóran áfellisdóm almennt, um tiltrú almennings á ríkisstjórninni, þegar kemur að því að gæta hagsmuna þjóðarinnar gagnvart öðrum þjóðum.
Skiptar skoðanir eru alltaf um verk og áform ríkisstjórna í einstökum málum. En þegar svona er spurt þá gegnir öðru máli. Fyrirfram gefa menn sér að efst í huga allra ríkisstjórna sé að gæta þjóðarhags og svo sannarlega hlýtur það að vaka fyrir lýðræðislegum stjórnvöldum á öllum tímum. En einmitt þess vegna eru það svo alvarleg skilaboð að almenningur hafi fullkomna vantrú á að núverandi stjórnvöld gæti þjóðarhags í samskiptum við aðrar þjóðir.
Sporin frá framgöngu ríkisstjórnarinnar hræða bersýnilega. Niðurstaða fólksins í landinu er ákaflega skýr og afdráttarlaus: Við treystum stjórnvöldum okkar EKKI til þess að gæta þjóðarhags í samskiptum við aðrar þjóðir, einmitt nú þegar mest ríður á.
Einar Kristinn Guðfinnsson, alþingismaður
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.