Það var ekkert gefins í Keflavíkinni
Það var léttur spaugur í gangi hér á Feyki.is þann 1. apríl síðastliðinn þess efnis að Keflvíkingar hefðu gefið leik sinn gegn Stólunum í úrslitakeppninni í körfubolta. Því miður var um aprílgabb að ræða því Keflvíkingar voru ekki á þeim buxunum að láta Stólunum eftir sæti í undanúrslitum þegar liðin mættust í Sláturhúsinu í Keflavík á skírdag. Stólarnir áttu erfitt uppdráttar í leiknum og að lokum unnu Suðurnesjakapparnir með 29 stiga mun, lokatölur 107-78.
Á heimasíðu Tindastóls segir að leikurinn var framan af nokkuð jafn, en Keflavík leiddi með nokkrum stigum eftir fyrsta leikhluta. Stólarnir jöfnuðu síðan leikinn í upphafi annars leikhluta í stöðunni 22 - 22. Þá hertu Keflvíkingar vörnina og skotin þeirra fóru að rúlla ofaní á meðan skot gestana rúlluðu frekar út af hringnum. Heimamenn leiddu með fjórtán stigum í hálfleik, staðan 49 - 35.
Keflavík kláraði síðan leikinn í þriðja leikhluta, unnu hann með 10 stigum og munurinn var orðinn 24 stig sem var óyfirstíganlegur fyrir gestina. Lokatölur urðu síðan 107 - 78.
Stigahæstir Tindastólsmanna voru Helgi Rafn með 24 stig og Cedric með 17. Of fáir leikmenn Tindastóls náðu sér á strik í leiknum og því fór sem fór.
Tímabilinu er því lokið hjá Stólunum og geta okkar menn þokkalega vel við unað. Takmark liðsins var að komast í úrslitakeppnina sem náðist þrátt fyrir bras framan af tímabilinu. Í úrslitakeppninni mættu Stólarnir síðan sterku Keflavíkurliði og náðu að sigra Suðurnesjadrengina hér í Síkinu og knýja fram oddaleik sem flestir hafa sennilega ekki átt von á, því Keflvíkingar höfðu farið illa með Stólana í fyrri viðureignum liðanna í vetur.
Stuðningsmenn Stólanna voru kátir að fá Cedric Isom til liðsins seinni part tímabilsins enda allt annað að hafa kana á Króknum sem gaman er að sjá spila körfubolta. Þá skilaði Visockis sínu vel en hann kom til liðsins á sama tíma og Isom.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.