Tap gegn FH
Lið Tindastóls/Neista mætti FH í 1. deild kvenna í gærkvöldi og var spilað við fínar aðstæður á Sauðárkróksvelli. Óhætt er að segja að allt annar bragur var á leik heimastúlkna í gærkvöldi en gegn ÍBV á mánudaginn en engu að síður varð uppskeran rýr, 0-6 tap.
Leikurinn var nokkuð jafn framan af en gestirnir komust yfir eftir 11 mínútur og voru reyndar öll mörk FH í leiknum keimlík, boltinn sendur innfyrir vörn Tindastóls/Neista og eftirleikurinn ansi hreint auðveldur. FH komst svo í 0-2 eftir 26 mínútur og þær bættu tveimur mörkum við fyrir hlé. Heimastúlkur reyndu að sækja en gekk illa að skapa sér færi, náðu þó að skora en markið var dæmt af vegna rangstöðu.
FH byrjaði síðari hálfleikinn með leiftursókn og gerðu tvö mörk á fyrstu fimm mínútum hálfleiksins en þá skellti markvörður Tindastóls/Neista, Sigurbjörg Marteinsdóttir, í lás og fleiri mörk voru ekki gerð í leiknum þrátt fyrir nokkur ágæt tækifæri FH.
Lið Tindastóls/Neista var mun öflugra í gærkvöldi en í leiknum á móti ÍBV á dögunum. Þær mættu grimmari í tæklingar og var dugnaður stelpnanna til mikillar fyrirmyndar.
Heimild: Skagafjörður.com
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.