Styttan af ferjumanninum afhjúpuð 5. júlí

Nú hefur verið ákveðið að afhjúpa styttuna af ferjumanninum, Jóni Ósmann, sunnudaginn 5. júlí nk. Gagngerar breytingar hafa verið gerðar á áningarstaðnum við Vesturós Héraðsvatna og nýr og góður gangstígur verið lagður milli hans og gömlu brúarinnar og Furðustranda. Áhugahópur um styttu af ferjumanninum hefur staðið fyrir þessum breytingum í góðu samstarfi við landeiganda, Sveitarfélagið Skagafjörð, Vegagerðina og fleiri aðila.

 

Hópurinn fékk víðast hvar góðar viðtökur í fjáröflun fyrir styttuna og fjölmargir einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir hafa lagt fram fjármagn og vinnu. Ragnhildur Stefánsdóttir mótaði styttuna í gips en bonsstyttan var steypt hjá Pangolín málmsteypufyrirtækinu Pangolín í Englandi í fyrrasumar.

 

Töf varð þá á bronssteypu styttunnar í Englandi, hún náðist því ekki heim fyrir bankahrunið og allur erlendur kostnaður hækkaði til muna. Nægilegt fé safnaðist þó og í ljós hefur komið mikill áhugi fyrir því að reisa styttu ferjumannsins við Vesturósinn. Þykir þeim sem séð hafa styttuna hún einkar vel gerð.

 

Athöfnin á áningarstaðnum hefst kl. 13:30 sunnudaginn 5. júlí og býst áhugahópurinn við fjölmenni. Styttan verður afhjúpuð og afhent framtíðareigendum, ávörp verða flutt og nokkrir söngvar og loks verður viðstöddum boðið til kaffidrykkju.

 

Frekari upplýsingar er að finna á vefsíðu ferjumannsins, www.skagafjordur.com/ferjumadurinn

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir