Stofnfundur félags áhugafólks um rabarbara
Rabarbarahátíð 2025 verður haldin 28. júní nk. „Aðstandendur hátíðarinnar hafa fengið rausnarlegan styrk frá Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra (tengt Sóknaráætlun SSNV) og þökkum við kærlega fyrir þann ómetanlega stuðning. En svona hátíð þarf að vera sjálfbær og má ekki standa og falla með einstaklingum sem hafa engra beinna hagsmuna að gæta. Þess vegna höfum við ákveðið að stofna áhugamannafélag um rabarbara með þann tilgang að halda sögu hans og tækifærum til nýtingar á lofti. Aðalmarkmið félagsins verður að halda hátíð einu sinni á ári og verða félagsgjöld meðal annars notuð til að greiða hluta af kostnaði við hátíðir og útgáfu á fræðsluefni um rabarbara.“
Stofnfundur verður haldinn í Kvennaskólanum á Blönduósi laugardaginn 15. mars næstkomandi kl.14:00. Að sjálfsögðu verður rabarbari uppistaða í veitingum. Allir sem hafa áhuga eru velkomnir á stofnfundinn og þeir sem ekki komast en hafa áhuga á að vera stofnfélagar geta sent póst á rabarbarafestival@gmail.com
Rabarbarahátíð í gamla bænum á Blönduósi var haldin í fyrsta skipti 29. júní 2024. Markmiðið með hátíðinni var að vekja athygli á sögu og nytjum rabarbarans. Jafnframt vildum við upphefja rabarbarann, sem var afar mikilvæg nytjaplanta hér á landi frá lokum 19. aldar fram að lokum 20. aldarinnar. Hann hefur nú vikið að miklu leyti fyrir öðrum vörutegundum þó enn sé hann eitthvað nýttur.
Rabarbari (Rheum rhabarbarum) er flokkaður sem fjölært grænmeti, en afar fáar grænmetistegundir eru það.
Á vefsíðunni huni.is segir að hugmyndin að þessari hátíð kom upp í göngutúrum um gamla bæinn þegar við áttuðum okkur á hve mikið vex af rabarbara í yfirgefnum görðum og á túnum á svæðinu. Við fórum að grúska í sögunni og rifja upp æskuminningar um rabarbara og áttuðum okkur á því að mögulega væru komnar kynslóðir sem þekktu ekki rabarbarann í sínu náttúrulega umhverfi og kynnu ekki að umgangast hann.
Hátíðin heppnaðist einstaklega vel þökk sé öllum þeim sem tóku þátt ýmist sem sjálfboðaliðar, gestir, þátttakendur í uppskriftakeppni og styrktaraðilar. Við lítum á þessa hátíð sem samfélagsverkefni og framtak til að auðga samfélagið en fyrir lítið samfélag eins og Húnabyggð er samstarf nauðsynlegt. Allir græða á því að vinna saman og gleðjast yfir velgengni náungans. Með hátíð eins og Rabarbarahátíð, Húnavöku og Prjónagleði skapast vettvangur fyrir alla sem eru að selja vörur og þjónustu. Því er mikilvægt að standa saman að slíkum hátíðum. Þetta skrifa þær Björk Bjarnadóttir, Elfa Þöll Grétarsdóttir, Katrín Sif Rúnarsdóttir og Iðunn Vignisdóttir.
Heimasíða hátíðarinnar er https://rhubarbfest.is/
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.