Stefán Sturla með Flækjurof á Grand inn nk. sunnudag
Næstkomandi sunnudag kemur skagfirski rithöfundurinn Stefán Sturla Sigurjónsson á Krókinn og ætlar að kynna nýjustu afurð sína, bókina Flækjurof, sem er þriðja bókin í þríleiknum um lögreglukonuna Lísu og aðstoðarfólk hennar. Stefán Sturla mun ræða um bækurnar sínar, spennusögurnar, rannsóknarvinnuna og aðferðina við að skrifa, persónurnar, fyrirmyndir og flækjur. Viðburðurinn fer fram á Grand-Inn 12. júlí klukkan 17 og verður bókin á sérstöku tilboðsverði þetta kvöld.
Stefán Sturla hefur verið búsettur í Vasa í Finnlandi sl. 14 ár en síðustu þrjú ár hefur hann verið verkefnastjóri á Höfn í Hornafirði að uppbyggingu Lista- og menningarsviðs við Framhaldsskóla Austur Skaftafellssýslu. Samhliða því starfi hefur hann skrifað tvær bækur sem tilheyra spennu þríleiknum um rannsóknarliðið hennar Lísu og örlagasögu Kára. Fyrsta bókin heitir Fuglaskoðarinn og kom út fyrir jólin 2017 og fyrir jólin 2018 kom önnur bókin út sem ber heitið Fléttubönd. Fjórða bókin Flækjurof, er nú komin í dreifingu og af því tilefni lá Feyki forvitni á að vita meira um rithöfundaferil Stefáns Sturlu.
„Ég hef nú allt frá því ég man eftir mér haft áhuga á að segja sögur, verið sagnamaður. Sem barn var ég alltaf að leika og setja upp leiksýningar. Þá voru stofugluggar notaðir sem svið og sýningin hófst með því að gluggatjöldin voru dregin frá sviðinu. Allt eftir kúnstarinnar reglum. Í skólum tróð ég mér alltaf með þegar átti að setja upp leiksýningar og var oftar en ekki með í að skapa handrit. Ekki man ég nú þessar sögur allar. En þetta hefur örugglega þroskað og þjálfað skapandi hugsun og skapandi lausnir. Ég hef örugglega ekki alltaf verið vinsælasta barnið í gestaboðum fjölskyldunnar, sí malandi og talandi og segjandi sögur. Svei mér þá ef ég er bara ekki svoleiðis ennþá,“ segir Stefán og hlær.
Hann segir þetta hafa svo þróaðist áfram og orðið til þess að hann endaði, eftir húsasmíðanám og bændaskólann á Hvanneyri, á að sækja um í Leiklistarskóla Íslands og komst inn. Þá var ekki aftur snúið. Í stað þess að verða bóndi var hann kominn í heim sögunnar, frásagna, listarinnar.
„Þrátt fyrir lesblindu þá hef ég alltaf verið ófeiminn við að skrifa og vinna dramtúrgíska vinnu, skrifa leikrit og leikgerðir. Ég skrifaði tvær barnabækur, Trjálf og Mimmla og Alína, tönnin og töframátturinn, sem varð líka leikrit og var frumsýnd í Bifröst á Sauðarkróki sama dag og bókin kom út. Ég er hins vegar lengi búinn að ganga með stórt verk sem ég skrifaði fyrst sem leikrit. Breytti því síðan í kvikmyndahandrit. Ég hef hins vegar ekki ennþá verið fullkomlega ánægður með formið, hvar ég vil segja þá sögu, í bók, leikhúsi eða bíói. Þessi saga er búin að vera í vinnslu í 13 ár og ég er enn að vinna í henni. Hins vegar kviknaði hugmyndin að spennuþríleiknum árið 2016. Þá sleit ég hásin og lá rúmfastur með tölvunni minni og var að berjast við söguna mína. Ég las þá grein um mann í Finnlandi sem hafði safnað óhemju stóru safni af eggjum og uppstoppuðum fuglum, fornum og nýjum. Þessi maður var jafnframt gríðarlega stórtækur á sölu ólöglegs varnings fyrir eggja-, fugla- og uppstoppaðra dýrasafnara. Þá fékk ég hugmynd um að skrifa spennusögu sem væru jafnframt þróunarsaga persónanna, væri meira en glæpasagan, kannski nær skáldsögunni. Eftir um 500 síður fannst mér ég vera búinn að tæma alla framvindu og spennu í kringum glæpasöguna sjálfa en átti mikið eftir að segja um líf aðalpersónanna. Þá ákvað ég að bækurnar yrðu að vera að minnsta kosti þrjár. Glæpasagan er mjög skemmtilegt form. Hún er í senn mjög alþýðuleg, pólitísk, sagnfræði kemur gjarnan fyrir í sögunum og svo þetta skemmtilega tvist að í seríum getur maður dýpkað persónurnar og þegar vel tekst til verða þær oft meira spennandi en glæpasagan sjálf. Það finnst mér flott.“
Haustið 2018 byrjaði Stefán að skrifa nýju bókina og segist hann hafa vitað nákvæmlega hver fléttan ætti að vera og þróun persónanna. „Þegar ég hugsaði þennan þríleik í upphafi voru landfræðilegar staðsetningar á atburðinum sem leiða áfram sögurnar hins vegar ekki klárar, þótt persónurnar og þeirra saga hafi verið nokkuð klárar áður en ég byrjaði að skrifa bækurnar. Þar sem ég var að vinna á Höfn á þessum tíma var nærtækt að skoða landslag, náttúru og sögur fjarðarins. Á fáum stöðum er meiri dramatík í náttúrunni en í Hornafirði. Veðrið, jökullinn, hafið og litirnir, þessi magnaða einstaka náttúra geymir fegurð, kraft og hættur. Þess vegna var það mjög eðlilegt að atburðir í þessari þriðju bók sem heitir Flækjurof, hæfust í þessu umhverfi, síðan fara leikar í Borgarfjörðinn en enda í Skagafirðinum.“
Hvernig skrifar þú spennusögu?
„Áður en ég byrjaði að skrifa fyrstu bókina í bókaflokknum, skrifaði ég ævisögu allra aðalpersóna verksins. Áður en ég byrjaði á Fuglaskoðaranum skrifaði ég ævisögur allra aðalpersóna bókaflokksins. Ég þekki því líf og bakgrunn persóna minni mjög vel. Glæpamálin sjálf eru síðan rannsóknarvinna og oftar en ekki samsuða nokkurra mála sem ég hef kynnt mér. Með dass af spillingu og gjarnan blandað með pólitík og trúarbrögðum. Allt sem fólk lifir og hrærist í og hefur skoðanir á. Þannig verður til afstaða lesandans til atburðarrásarinnar, einstakra málefna og persóna, sem ég tel mjög mikilvægt.
Að skrifa spennusögur er í rauninni stærðfræði og rannsóknarvinna og jafnvel sagnfræði. Höfundur þarf að tvinna saman margar ólíkar formúlur sem þrátt fyrir allt verður að enda á niðurstöðu. Síðna þarf að leita upplýsinga um mál, fræðiheiti, lífræði, læknisfræði, trúarbrögð, landafræði, sagnfræði og starfshætti björgunarsveita, lögreglu, slökkviliðs og presta, svo fátt eitt sé nefnt. Svo sest maður niður með allar þessar upplýsingar og skemmtir sér við að leiða lesandann áfram í von og ótta, þar sem hann grunar einhvern og reynir að upplýsa glæpamálið en flækist í net höfundar,“ segir Stefán í lokin sem vonast til að sjá sem flesta á Grand-inn nk. sunnudag. „Hlakka til að hitta ykkur!“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.