Skellum okkur með Dúddírarirey inn í helgina
Það er föstudagur og hvað er þá betra en að hlæja og neita að núllstilla lífið með neikvæðni? Þetta er í það minnsta góður tími fyrir kappana í Danssveit Dósa að stíga fram og skella í loftið lipru og léttu lagi sem þeir kalla Dúddírarirey. Þetta er fyrsta lagið sem þessir eldhressu skagfirsku gleðipinnar senda frá sér og er hægt að nálgast lagið á Spottanum góða.
Lagið er tekið upp í Stúdíó Benmen á Króknum og skartar meðal annars algjöru eðal nikkusólói í boði Arnars Freys Guðmundssonar og svo klikkaðslega kettsý kórus að það hálfa væri hellingur. Arnar Freyr spilar á píanó og harmonikku í laginu, Alex Már á bassa, Eysteinn sér um hammond og bakrödd, Jóhann Daði ber trommur og Sæþór spilar á gítar og syngur.
Annars er gróska í tónlistinni sem sjaldan fyrr og kennir margra góðra grasa á Spottanum. Vinir Dósa og félaga, Álftagerðisbræður (sem eru reyndar nokkrum aldursflokkum ofar), eru nú loks til niðurhals eða notalegrar hlustunar á Spottanum. Nú er semsagt hægt að hlýða á þrjár breiðskífur þeirra bræðra; Álftirnar kvaka, Bræðralög og Í Álftagerði og eru það sannarlega gleðifréttir fyrir þá sem haldnir eru vægu AutoTune óþoli.
Þá sendi Blankiflur frá sér nýtt lag á dögunum en Inga Birna heldur áfram að galdra fram eitt og eitt listaverk úr sínum seiðpotti. Lagið kallast GAME og er þetta fjórða lagið sem hún sendir frá sér undir þessu nafni.
Allir vita að Salka Sól er tengdadóttir Skagafjarðar en það er hún Elín Hall líka. Hún og Reynir Snær Magnússon, gítarleikar-inn Íslands þessi misserin, mættu í Ríkiskassann til hans Gísla Marteins í vikulokin síðustu og spiluðu og sungu Stanslaust stuð. Lagið gerði Páll Óskar sívinsælt á síðustu öld en Elín dregur töluvert úr stuðinu – en vel gert!
Sverrir Króksari Bergmann, Halldór Gunnar og hinir Albatrossarnir hafa gefið út lagið Allt á hvolfi en þeir félagar hafa minnt á sig með að meðaltali einum smelli á ári síðasta hálfa áratuginn.
Um síðustu mánaðamót gaf VALDÍS út lagið Peace Of You og hefur lagið klifrað hægt en örugglega upp vinsældarlista landsins en það situr nú í sjöunda sæti Bylgjulistans. Lagið er enn að mjakast upp Vinsældarlista Rásar 2 og situr þar í 23. sæti.
- - - - -
Það hafa örugglega fleiri ferskir stígið fram á tónlistarsviðiði upp á síðkastið sem farið hafa fram hjá Feyki. Beðist er velvirðingar á því en þetta er í það minnsta eitthvað.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.