Skagfirskir skólar duglegir í erlendu samstarfi

Grunnskólarnir í Skagafirði eru duglegir í samstarfi við skóla í öðrum löndum. Erlent samstarf af því tagi sem grunnskólarnir eru í er mikilvægur liður í endurmenntun kennara og eflingu skólastarfs í héraðinu. Erlent samstarf skólanna byggir að mestu leyti á styrkjum úr ýmsum áttum. Sem dæmi má nefna styrki sem fengist hafa í gegnum Comenius. Comenius er hluti af Menntaáætlun Evrópusambandsins og miðar að því að koma á gæðastarfi í skólum og tryggja Evrópuvitund í menntun.

 Ýmis fjölþjóðleg samstarfsverkefni við skóla víðs vegar í Evrópu njóta styrkja úr áætluninni. Auk þróunarverkefna styrkir Comenius ýmis verkefni sem ætluð eru til þess að auka möguleika til endurmenntunar og starfsþjálfunar kennara og efla tungumálanám á öllum skólastigum. Þá má nefna Nordplus styrki en Nordplus er hluti af  Menntaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar (Nordplus Rammeprogram).  Tilgangngur Nordplus er að veita styrki til samvinnu á sviði menntamála á Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum.  Varlega er áætlað að styrkir þessir hafi numið um 12-15 milljónum króna á síðustu tveimur árum.

Árskóli  er í samstarfi við skóla í Skotlandi,  Englandi og Danmörku. Verkefnið, sem styrkt er af Comenius hefur hlotið nafnið  ,,Healthy school – healthy mind“ og gengur út á sýn skólanna á þá þætti sem heiti verkefnisins ber í sér.  Samstarfsskólinn í Skotlandi er jafnframt handleiðandi  Árskóla í sjálfsmatskerfi Árskóla, en samskiptin á milli þessara tveggja skóla hefur varað farsællega í 10 ár. Nú nýlega hafa þessir fjórir skólar tekið upp samstarf um kennaraskipti. Þá má nefna samstarf 10. bekkjar nemenda Árskóla við nemendur í Højelse skóla í Køge í Danmörku en það gengur út á gagnkvæmar heimsóknir nemenda þessara skóla. Þannig hafa nemendur 10. bekkjar farið til Danmerkur árlega í 12 ár og því má áætla að allt að 600 ungmenni á Sauðárkróki hafi heimsótt þennan vinabæ okkar á undanförnum árum. Þetta samstarf hefur verið einstaklega gefandi – ekki síst fyrir tungumálakennsluna.

Varmahlíðarskóli hefur hlotið styrki í gegn um Comenius til samstarfs við skóla í Danmörku, Spáni og Finnlandi. Samstarfsverkefnið heitir ,,Healthy child – happy child“. Nemendur mynda einstaklingsbundin tengsl sín á milli og skiptast á skoðunum og viðhorfum, t.d. hvað varðar hefðir og siði í daglegu lífi.  Þá hefur einnig fengist styrkur úr Comeniusi til undirbúnings verkefnis sem ætlað er að hefjast haustið 2010. Verkefni  þetta hefur fengið heitið ,,Að lifa í nánd við virk eldfjöll“.  Auk Varmahlíðarskóla taka þátt í þessu verkefni skólar frá Þýskalandi, Ítalíu , Tyrklandi, Portúgal og Spáni. Frá árinu 2002 hafa nemendur 10. bekkjar Varmahlíðarskóla farið til Danmerkur. Ferðir þessar eru hvoru tveggja fjármagnaðar með styrkjum og söfnunarfé eins og í Árskóla.

Grunnskólinn austan Vatna hefur nú nýverið fengið styrk  vegna forverkefnis sem lýtur að undirbúningi að sameiginlegu verkefni með skólum frá Eistlandi, Lettlandi og Danmörk. Þessa vikuna dvelja kennarar frá þessum skólum  í Grunnskólanum austan Vatna og vinna, ásamt heimakennurum, að undirbúningi styrkumsóknar til verkefnisins sjálfs, en áherslan í því verður  á heilbrigðan lífsstíl, umhverfismál og grenndarkennslu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir