Skagafjörður leiðandi í Barnaverndarþjónustu Mið-Norðurlands
Gerðar hafa verið viðamiklar breytingar á þjónustu og umsýslu er varðar barnavernd á Íslandi sem tóku gildi þann 1. janúar sl. Breytingarnar felast fyrst og fremst í því að þjónustusvæði einstakra barnaverndarþjónustu hafa verið skilgreind að nýju og er nú áskilið að á bak við hverja barnaverndarþjónustu skuli vera 6000 íbúar að lágmarki.
Þetta kemur fram á heimasíðu Skagafjarðar en þar segir ennfremur að önnur meginbreyting á lögum um barnavernd sé sú að í stað þeirra barnaverndarnefnda sem starfandi voru í hverju sveitarfélagi fyrir sig er nú komið það sem kallað er umdæmisráð barnaverndar.
„Hvað varðar fyrri meginbreytinguna, þ.e. 6000 manna þjónustusvæði, þá hafa sveitarfélögin á Norðurlandi vestra ásamt Fjallabyggð ákveðið að reka saman barnaverndarþjónustu sem kallast nú Barnaverndarþjónusta Mið-Norðurlands. Í samstarfi þessu er Skagafjörður svo kallað leiðandi sveitarfélag og ber ábyrgð á framkvæmd þjónustunnar fyrir hönd þessara sveitarfélaga.
Hvað varðar umdæmisráð, þá er nú búið að stofna fjögur umdæmisráð á landinu og eru þau sveitarfélög sem um ræðir hér að ofan aðilar að einu þeirra, Umdæmisráði landsbyggðanna, ásamt um 40 öðrum sveitarfélögum á landsbyggðinni. Í umdæmisráðunum er áskilið að þar sitji lögmaður, sálfræðingur og félagsráðgjafi,“ segir á Skagafjordur.is, hvar hægt er að fræðast nánar um verkefnið.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.