Samstarf um eflingu þekkingarstarfsemi í sveitarfélögunum Hornafirði og Skagafirði

Forsvarsmenn sveitarfélaganna Hornafjarðar og Skagafjarðar, ásamt fulltrúum mennta og rannsókna, undirrituðu á fimmtudag viljayfirlýsingu um aukið samstarf þessara aðila á sviði þekkingarstarfsemi. Fylgdi undirritunin í kjölfar málþings sem haldið var í Verinu, vísindagörðum á Sauðárkróki, þar sem kynnt var brot af þeirri öflugu og fjölbreyttu starfsemi sem nú þegar fer fram í sveitarfélögunum, ekki síst tengslum við þekkingarsetrin Verið á Sauðárkróki og Nýheima á Höfn í Hornafirði.

Stigu þar á stokk fulltrúar frá m.a. Fræðasetri Háskóla Íslands á Höfn, Matís, FISK Seafood, Háskólanum á Hólum, Nýsköpunarmiðstöð og Verinu og kynntu þá starfsemi og samstarf sem fer fram á vettvangi þessara stofnana og fyrirtækja.

Með undirrituninni einsetja sveitarfélögin sér, og stofnanir og fyrirtæki sem þar eru starfandi, að efla núverandi samstarf og samráð um eflingu þekkingarstarfsemi í því skyni að samnýta fjármagn og krafta betur og auka þannig gæði og samkeppnishæfni starfseminnar. Á undanförnum árum hefur margvísleg þekkingarstarfsemi verið efld í báðum sveitarfélögum og tengsl myndast á ákveðnum sviðum, m.a. um rannsóknir á sviðum ferðamála, fiskeldis og matvæla. Ætlunin er að greiða götu slíks samstarfs enn frekar á komandi árum, m.a. með reglulegum samráðsfundum, samnýtingu aðstöðu og tækjabúnaðar og samvinnu um einstök verkefni. Er sérstökum samráðsvettvangi ætlað að leiða þetta starf.

Hér er um nýstárlega nálgun að ræða þar sem svo nánu samstarfi á þessum sviðum hefur ekki áður verið komið á milli sveitarfélaga sem eiga ekki landfræðilega legu saman. Standa væntingar til að með þessu móti verði mætt mikilli og vaxandi þörf í landinu fyrir aukna þekkingu, háskólamenntun og rannsóknir á sviðum sem skipta atvinnulíf, opinbera starfsemi og byggðaþróun miklu máli.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir