Saga Þuríðar Hörpu kafli fjögur

Þuríður Harpa

Við hófum á dögunum að fylgjast með sögu Þuríðar Hörpu hér á Feyki en Þuríður bloggar á síðu sinni oskasteinn.com. Í dag birtum við kafla fjögur í sögu Þuríðar og minnum á á sala óskasteinanna er hafin.Fyrstu dagarnir liðu og eins ótrúlegt og það nú er þá fannst mér þeir ekkert vera lengi að líða, ég bara lá þarna og gat ekkert annað. Þaulvanir sjúkraliðar og hjúkrunarfræðingar

hugsuðu um mig frá morgni til miðnættis en þá tók næturvaktin við. Ég fékk næringu í æð og smá saman minnkaði morfínskammturinn að deginum  og verkjalyfin tóku við. Mér fannst ég öruggust með að gróa vel ef ég lægi á bakinu í rúminu, ég var hrædd um að eitthvað skekktist í bakinu á mér ef eitthvað átti að hnika mér til. Sú ákvörðun hvort ég breytti um stellingu í rúminu var þó ekki mín. Með jöfnu millibili komu sjúkraliðarnir og sneru mér því passa varð uppá að ég fengi ekki legusár. Ótrúlega nístandi taugaverkir gengu í gegnum bakið á mér við þessar aðgerðir, þeir voru svo ólýsanlega sárir að ég hreinlega háskældi. Svo hurfu þeir jafn snögglega og þeir komu og ég skyldi ekkert í því afhverju ég hafði skælt. Hjúkrunarliðið þurfti líka að fylgjast með að þvagpokanum sem tengdur var við mig því auðvitað var engin leið fyrir mig að pissa eðlilega. Strax á fyrstu dögum var ég svo drifin í bað, þvílík upplifun. Einn morguninn stormuð þær inn með bláan flatann, gúmíklæddann bekk á hjólum. - Við ætlum að bjóða þér í bláa lónið sögðu þær galvaskar, rétt á eftir birtist ein til viðbótar með silfurklædda langa plötu, þetta er silfurskottan okkar sögðu þær, við færum þig á milli í henni. Ertu ekki tilbúin í bað spurðu þær. Jú ég varð að játa að mig langaði virkilega í bað, enda fann ég hvað hárið var orðið fitugt og klesst. Síðan var hafist handa við að færa mig yfir, silfurskottunni var ýtt undir aðra hliðina á mér en þarna gengdi lakið stóru hlutverki mér var skutlað yfir á skottuna með því að draga lakið einhvernveginn til og þaðan yfir á bláa lónið sem var baðker á hjólum. Við aðfarirnar fékk ég þessa líka nístandi taugaverki sem slógu öll vopn úr höndum mér ég hreinlega baðst vægðar, sagðist alveg geta sleppt baðinu. En þær þekktu þetta og biðu bara eftir því að þeir liðu hjá, síðan var mér rennt af stað í sturtuklefann.

Þar var ég berháttuð, sem sagt færð úr hvíta stóra bolnum og nærbuxum sem voru fyrir bæði kynin held ég. Kellurnar í sloppunum og hvítu buxunum skelltu sér í gúmmístígvélin og hanskana og byrjuðu að baða. Ein hélt á handsturtunni og lét buna á mig hin hófst handa við að þvo mér um höfuðið. Á meðan fór hin æfðum höndum með svampinn og sápuna undir handakrikana, yfir bringuna og áfram niður. Ég fann ekkert fyrir neðanþvottinum en mikið svo rosalega var þetta fáránlegt, þarna lá ég ofurseld öðrum manneskjum algjörlega berskjölduð og varnarlaus meðan þær þvoðu mér og ég fann ekki einu sinni fyrir því. Hvernig var ég eiginlega orðin einvernveginn fannst mér ég ekki manneskja ég var bara svona hlutur. Loks var þetta búið skrúfað var fyrir vatnið og þá hófst þurrkunin. Ég reyndi að njóta þess að vera þurrkað um hárið og handleggi og bringu en þegar það var búið fann ég ekki meir, þær hefðu alveg eins getað verið að þurrka fæturnar á annarri konu. Síðan skelltu þær á mig kremi og smokruðu mér í nærfötin.  Síðan var mér komið aftur í rúmið ég verð að játa að ég var algjörlega búin á því eftir baðferðina og þeirri stund fegnust þegar sængin var sett ofan á mig og ég gat bara breytt hana upp fyrir andlit og skælt í friði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir